Sif Hauksdóttir skrifaði heilbrigðisráðherra bréf í gær vegna samninga við sjúkraþjálfara. Fjölskyldan þarf að fara með tvo drengi þeirra 2 sinnum í viku í þjálfun vegna vöðvarýrnunarsjúkdóms og kostar það þessa ungu fjölskyldu litlar 123.280.- kr á mánuði. Hér má sjá bréfið í heild sinni sem Sif sendi Kristjáni Þór Júlíussyni í gær.
Eftirfarandi póst sendi ég heilbrigðisráðherra núna í morgun. Það verður virkilega fróðlegt að sjá hvort þetta geri eithvað. Ég efast stórlega um það en ég get ekki bara setið og sagt ekkert. Það mega endilega sem flestir deila þessu. Þetta á erindi við okkur öll, öll þekkjum við einhvern sem þarf á sjúkraþjálfun að halda.
Sæll Kristján,
Ég vona að ég sé hvorki fyrsta né síðasta manneskjan til að skrifa þér um eftirfarandi málefni enda mjög ofarlega í huga margra þessa dagana.
Það sem um ræðir er samningur við sjúkraþjálfara. Það er með ólíkindum að ekki sé hægt að staðfesta þennan samning. Þú hefur nefnt fjármagn, en sem heilbrigðisráðherra hlýtur þú að skilja það að ef fólk fær ekki sína nauðsynlegu sjúkraþjálfun þá getur það varla haft neitt annað en slæm áhrif á heilsu þess. Sem hlýtur að koma út í auknum kostnaði annarstaðar í heilbrigðiskerfinu.
Sem móðir er ég svo heppin að eiga þrjú yndisleg börn. Synir mínir tveir eru með ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdóm, og sjúkraþjálfun er þeim afskaplega nauðsynleg. Þeir fara hvor um sig tvisvar sinnum í viku í þjálfun eins og er. Þeir fóru í morgun og fyrir það greiddum við 15.410 krónur. Þeir fara aftur á mánudaginn, og aftur á miðvikudaginn eftir viku og svo framvegis. Þetta gera 30.820 krónur á viku, 123.280 krónur á mánuði. Sem eins og gefur að skilja er afskaplega mikill peningur fyrir unga fjölskyldu með börn.
Við höfum ekki valkostinn að pása meðferð þangað til skrifað verður undir.
Er þetta þjóðfélagið sem þú villt bjóða fólki uppá að búa í ? Ef af einhverjum ástæðum fólk þarf á sjúkraþjálfun að halda að þá sé bara eins gott fyrir það að vera með góðar tekjur því annars megi það bara éta það sem úti frýs ?
Þetta er helvíti lélegt verð ég að segja og ég skora á þig að skrifa undir sem fyrst.
Með bestu kveðju,
Sif Hauksdóttir