JESSS! VIÐ KOMUMST ÁFRAM. Eins og ég sagði í póstinum á undan, Eyþór er algjör fagmaður og hann er algjört lukkutröll þegar kemur að söngkeppnum! Flutningurinn hjá honum í kvöld var óaðfinnanlegur og ég ét ofaní mig alla þá neikvæðni sem blossaði upp í mér fyrst þegar ég frétti af því að lagið yrði á íslensku. Á blaðamannafundi sem var að ljúka sagði Eyþór að hann væri þákklátur fyrir að fá tækifæri til að syngja lagið aftur og gera það vonandi enn betur. Hann þakkaði svo Dalvík sérstaklega fyrir stuðninginn á íslensku. Keppendur draga í hvaða hluta keppnirnar þeir verða og Eyþór dró upp seinni hlutann sem er gott! (Uppfært kl 01:00, framleiðendur Eurovision hafa ákveðið að Eyþór verði númer 19 í röðinni, á eftir Dönum og á undan Azerbaijan).
En að úrslitum kvöldsins. Ég spáði 7 lögum rétt en skipti reyndar um skoðun eftir flutning laganna í kvöld og sagði að Malta færi áfram frekar en Ísrael sem reyndist svo rétt. Tíðindi kvöldsins eru þau að Júgóslavía bíður afhroð í líkt og í fyrri undanriðlinum (kominn tími til, segi ég!). Ég held að það sé rétt hjá mér að ekkert fyrrverandi Júgóslavíuland sé með í úrslitunum á laugardaginn. Norðurlöndin standa mjög sterkt, en þau komust öll áfram! Þannig að mynstrið er að breytast aðeins í ár og svo eru lönd eins og Tyrkland ekki með, þannig að við gætum séð aðeins breytt mynstur í stigagjöfinni á laugardagskvöldið (kominn tími til!).
En lítum á lögin sem komust áfram í kvöld:
Ísland: Eyþór Ingi – Ég á líf
Ég fékk það sem ég kalla “Jóhönnu-móment” þegar Eyþór flutti lagið í kvöld. Gríðarlega fallegur flutningur hjá honum, látlaust og flott. Við verðum á fínu róli á laugardaginn, ætli við vinnum þetta ekki bara? ha? … um að gera að koma sér í gamla góða íslenska gírinn er það ekki? 🙂 hahaha – Að öllu gríni slepptu, er það full víst að Eyþór á eftir að gera okkur öll stolt á laugardagskvöld.
Noregur: Margaret Berger – Feed You My Love
Þetta kom alls ekki á óvart. Hörku lag, hörku beat! Ég tel að þetta eigi eftir að gera flotta hluti á laugardaginn, jafnvel topp 5. Hún skilaði laginu vel og það hreinlega geislaði af henni. Fékk meir að segja ekki kjánahroll þegar ég sá trommarann hamast á trommunum í bakgrunn (eins og vill oft gerast)!
Azerbaijan: Farid Mammadov – Hold Me
Azerarnir eru bara eins og nefskatturinn, koma einusinni ári og verða að fara áfram. Fínt lag og þetta verður eflaust í topp 5 eins og öll lögin frá Azerbaijan eru…
Finnland: Krista Siegfrids – Marry Me
Þetta var bara hressandi! Pínu Katy Perry fýlingur í laginu…. og í kossinum. Það er allt vitlaust útaf þessum kossi (afhverju?). Ég held að þetta geti gert fína hluti á laugardaginn, alveg klárlega topp 10!
Ungverjaland: ByeAlex – Kedvesem
Ánægður með það að sjá Ungverjana áfram! Mér fannst þetta reyndar pínu leiðinlegt atriði þegar þeir voru komnir upp á sviðið en ég held með landinu og þeir eru góðir Eurovision vinir okkar! 🙂
Malta: Gianluca Bezzina – Tomorrow
Verð að viðurkenna að ég eiginlega bara gleymdi Möltu í fyrri pistli mínum í dag og setti Ísrael inn í blindni minni! Um leið og ég sá hann flytja lagið á sviðinu vissi ég að hann færi áfram. Bresk vinkona mín sem horfði með mér, og hefur bara svona normal attitjút gangvart Eurovision var líka að fýla hann í botn. Hann geilsaði af jákvæðni og gleði og lagið er meinlaust gleðipopp sem gerir nú kannski engar svakalegar gloríur á laugardaginn en það verður gaman að hafa hann með!
Grikkland: Koza Mostra & Agathon Iakovidis – Alcohol Is Free
“Sauðdrukknu” Grikkirnir komust að sjálfsögðu áfram, þeir eru með skylduáskrift áfram! En þetta lag er mjög skemmtilegt og ég á örugglega eftir að spila það þegar ég tek Eurovision-syrpu næst þegar ég DJa. Þetta lag verður alveg klárlega í topp 10 og gamli maðurinn með mandólínið var alveg að skora mörg stig í kvöld!
Rúmenía: Cezar Ouatu – It’s my life
Ég varaði sérstaklega við Rúmeníu áðan! Þetta er náttúrunlega algjör viðbjóður, en hey, þetta er nú einusinni Eurovision og við þurfum á svona lögum að halda! Ég veit ekkert hvað þetta lag gerir, en a.m.k. erum við með eina góða steik á laugardagskvöldið!
Georgía: Nodi & Sophie – Waterfall
Þetta kom ekkert á óvart. Skotheld Euroballaða sungin af dúett og vindvélin á fullu. Svona á þetta að vera. Ég tel þó að þetta eigi ekki eftir að vera ofarlega í keppninni á laugardaginn.
Armenía: Dorians – Lonely Planet
Ég spáði þessu ekki áfram og hef svosem lítið um þetta að segja. Ágætt lag og algjörlega meinlaust að fá þetta áfram. Verður örugglega á topp 10 vegna nágrannakosningar.
Nú er bara að græja eitthvað gott á grillið (þrátt fyrir að það sé ekki komið sumar!), kaupa snakkið, drykkina og njóta þess að eiga góða stund með þeim sem okkur þykir vænt um. Ég segi alltaf að Eurovision sé eins og jólin, sérstök lög sem eru bara spiluð á þessum árstíma og fjölskylda og vinir sameinast yfir þessu!
Áfram Ísland á laugardaginn! Hvaða sæti heldur þú að við lendum í á laugardaginn, láttu í þér heyra hér að neðan!