Ég gleymi seint deginum þegar við, mamma, pabbi og bróðir minn ókum hálfa leið yfir landið til að koma okkur systkinunum í Framhaldsskóla. Ég hafði ákveðið að fara í Framhaldsskólann á Laugum, sem hentaði vel fyrir sveitavarginn sem vildi ALLS ekki búa í Reykjavík en vildi samt halda áfram að mennta sig eftir grunnskólann. Þarna var heimavist og allt að gerast. Bróðir minn ætlaði hinsvegar ekki að koma á Laugar heldur fara í Framhaldsskólann á Húsavík. Nánast í sama póstnúmeri svo við vorum öll í bílnum. Þess má til gamans geta að hann var kominn á Laugar í skóla eftir áramótin og ég stenda fast á því að hann hafi komið til að vera með mér en hann vill ekki viðurkenna það, segir þetta ekki hafa komið mér neitt við. 🙂
Þetta var bjartur og fallegur dagur og ég, síþreyttur unglingurinn, sem taldi mig samt vera svo fullorðin, dottaði í bílnum. Ég rumskaði við það að pabbi hækkaði fréttirnar í botn og ég heyrði í útvarpinu að Díana prinsessa hefði látist í alvarlegu bílslysi. Þetta voru sláandi fréttir fyrir allan heiminn og ég man að það fór um mig og mér fannst þetta svakalega sorglegt.
Sjá einnig: „Ekki segja neinum að ég hafi grátið“
Við komum á Laugar og ég man ekki til þess að ég hafi verið sérstaklega spennt. Ég var óvön svona margmenni og gekk með veggjum af feimni. Ég var svo feimin þegar ég var yngri að ég átti bara virkilega erfitt í mörgum nýjum aðstæðum og ég upplifði hreinlega líkamlega einkenni þegar ég varð feimin. Bara það að það voru krakkar fyrir utan skólann þegar við komum, fannst mér svakalegt. Mér fannst ég alltaf vera lítil og asnaleg og var með mikla minnimáttarkennd yfir fötunum mínum og útliti mínu almennt. Ég horfði út um gluggann á bílnum og fann hitann koma upp hálsinn á mér og út í eyrun. Alltaf það sama sem gerðist. Ég hafði eitthvað lag á því að láta roðann stoppa á eyrunum og koma ekki fram í andlitið en þetta var nógu óþægilegt. Ég skipaði pabba að leggja ekki beint fyrir utan heldur aðeins til hliðar. Hann hlýddi. Ekki það að það hafi breytt neinu þannig, en mér leið betur að enginn horfði á mig koma út úr bílnum.
Ég var rituð inn í skólann og ég varð eftir.
Dagarnir á eftir voru mér svakalega erfiðir. Það var nefnilega busað í VIKU á Laugum. Ég, sjúklega feimin, skíthrædd og vanmáttug var með hnút í maganum alla daga. Busarnir voru stundum teknir, keyrt með þá til Húsavíkur, þeir bundnir við ljósastaur og látnir þurfa að redda sér úr þessari klípu. Sumir voru látnir troða upp í matsalnum og ef þeir gerðu það ekki var þeim hent í tjörnina. Fyrir utan það að vera að kynnast nýju fólki og stíga mín fyrstu skref í framhaldsskóla var ég með hjartað í buxunum. Mín eina vörn, sem ég hafði tileinkað mér fyrir einhverjum árum síðan, var að mynda helst ekki augnsamband, halda mig til hlés og vera köld. Þetta er ekki leið sem ég myndi mæla með en ég kunni ekkert annað á þessum tíma. Ef ég var ísköld var fólk ekki að koma til mín og ég fékk að vera í friði, nema ef ske kynni að ég myndi leggja í að tala við þau. Ég slapp samt ekki þessa viku og þurfti að hlaupa undan eldri nemendum oft og mörgum sinnum. Vikan endaði á því að okkur var öllum hent í tjörnina og ég varð lasin eftir það.
Sjá einnig: Ég átti yndislega vinkonu
Ég skemmti mér mjög oft vel í skólanum en ég væri ekki til í að endurtaka unglingsárin mín þó ég gæti. Það var margt sem gerðist á þessum árum sem ég væri ekki til í að gera aftur, þó auðvitað hafi margt verið gaman líka. Ég lenti í ástarsorg, lærði að það að „fara í púl“ var ekki orð yfir að fara að púla heldur að spila pool, fór á svigskíði í fyrsta sinn, upplifði ósætti og dramatík í strákamálum, lærði á internetið, eignaðist nýja vini, fékk bílpróf og rústaði bílnum mínum, var rænd, var ofsótt, flutti í bæinn, bjó hjá ömmu og afa, bjó á gistiheimili með fullt af Rússum sem reyktu og drukku mikið, vann á óhemju mörgum stöðum, leitaði að sjálfri mér og margt fleira.
Mér finnst alltaf gaman að sjá brosandi unglinga á leið í nýjan skóla og hugsa til þess að þarna, þegar ég var í þessum sporum, fannst mér ég vera fullorðin.
Það var svo langt frá því!
Fylgstu með!
Kidda á Instagram
Hún.is á Instagram
Hún.is á Snapchat: hun_snappar
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.