Enginn vafi leikur á því að væru górillur gæddar röddu sem mannfólkið gæti skilið, væri engin slík dýr að finna bak við öryggisgler í dýragörðum víðsvegar um heim. Reyndar er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig dýrunum líður innilokuðum meðan gestir og gangandi geifla sig allan liðlangan daginn bak við rimlana sem skilja að frelsi og fangelsun.
Af og til glittir þó í örvæntinguna sem grunlausir gestir festa á filmu meðan á heimsókn þeirra í dýragarða stendur. Þannig brást tæplega 200 kílóa górilla ókvæða við þegar ung stúlka barði galsafengin á brjóst sér framan við öryggisglerið í Henry Doorly Zoo – eða dýragarði nokkrum í Ohama, Nebraska en foreldrar hennar fönguðu óhugnarlegt mótsvar silfurbaksins á farsíma sinn, sem eðlilega olli gestum ómældri skelfingu.
Sjá einnig: Dýr sem hegða sér eins og menn – Myndband
Myndbandið hér að neðan sýnir einnig hversu mikilvægt er að virða ólík boðskipti og þjónar sem verðug áminning þess að sakleysisleg bending sem að mati okkar mannfólksins felur í sér glettni, getur orkað ógnandi og jafnvel hræðilega í augum dýranna. Líkamstjáning er öflugt samskiptatæki og sér í lagi þegar dýr eiga í hlut. Þannig getur beint augnsamband eða bringusláttur, skjannahvítt bros þar sem skín í allar tennur verið merki um árásargirnd meðal apa.
Sjá einnig: Dýragarður dauðans – EKKI fyrir viðkvæma – Myndir
Górillan í myndbandinu hér að neðan heitir Kijoito og er haft eftir starfsmönnum dýragarðsins að þrátt fyrir að dýrið hafi sprengt öryggisglerið eftir endilöngu hafi engin raunveruleg hætta verið á ferð. Alvarlegt þó og alvarleg áminning þess efnis að fara varlega að innilokuðum dýrum í búrum:
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.