Hönnuðurnir Craig Chevalier og Claudia Leccacorvi sáu um hönnunina á þessu fallega húsi í Vancouver í Canada. Húsið var reist 2012 og kostaði rúmar 7 milljónir dollara. Í húsinu eru fjögur svefnherbergi og fimm baðherbergi. Stíllinn er í mýkri kantinum, hlýlegar viðarinnréttingar á móti rjómalitum á veggjum og í húsgögnum. Falleg múrsteinaklæðning setur skemmtilegan svip á rýmin. Gler í stigagangi kemur með nútímalegan modernisma á móti ljúfum tónum og gengur samspilið vel upp. Baðkar út á miðju gólfi hleypir lífi í rýmið enda hægt að njóta útsýnisins beint úr baðkarinu. Í stofunni eru mildu litirnir brotnir upp með litríkum púðum og fleiru. Þá heillar einnig falleg ljós sem hanga í anddyrinu og varpa án efa vissum sjarma á veggina á þessu opna svæði í húsinu þar sem lofthæðin er mikil og ber því þessa stærð af ljósum.
Árni býr í Reykjavík en ólst upp í Garðinum. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og nam stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Að því gefnu hefur hann mikinn áhuga á stjórnmálum, ásamt því að vera mikill áhugamaður um hönnun, arkitektúr og ljósmyndun. Árni hefur gaman að tónlist og leiklist, kvikmyndum og matargerð annarra. Hann viðurkennir fúslega að vera ömurlegur í eldhúsinu og leggur ekki á nokkurn mann að koma í mat til sín. Nýja dellan er að vaða um íslenska náttúru með myndavélina og reyna að ná góðum myndum með misjöfnum árangri. Árni er mikil félagsvera og nýtur sín best í góðra vina hópi og með fjölskyldunni. Hann er dýravinur, en gengur illa að eiga gæludýr. Þau annað hvort drepast eða flýja af heiman. Árni gleymir sér á netinu við að skoða fallega hönnun, heimili og fasteignasíðurnar eru í miklu uppáhaldi. Árni deilir með okkur því sem hann fellur fyrir hverju sinni og reynir að koma víða við í stílum og hönnun til að ná til sem flestra. Árni heldur úti Facebooksíðu þar sem hann deilir hugðarefnum sínum, enda kallar hann síðuna Hugarheim Árna.