Ég rakst á meðfylgjandi myndband og texta (sjá neðst) sem íslenski leikarinn Dagur Snær, eða Daily Snow eins og hann er kallaður, deildi á Facebook í dag, sjálfan Hvítasunnudag, þar sem hann veltir fyrir sér viðbrögðum Jesú við byggingu mosku í Reykjavík:
Ég er einn af þeim sem horfir á Ísland úr fjarlægð, en kem þó stundum í heimsókn. Þegar það líður langur tími á milli heimsókna, þá skil ég hugtakið “að koma af fjöllum”. Einmitt þannig leið mér í maí þegar ég kíkti við, þá hafði ég ekki verið á landinu í eitt og hálft ár. Það var gott að sjá fjölskylduna, en mér krossbrá þegar sum þeirra tjáðu sig um önnur trúarbrögð en þeirra eigin (les: Islam). Ég vissi að umræðan í kjallaraholum internetsins hefur verið svæsin, en mér datt ekki í hug að upplifa hana annarsstaðar en á kommentakerfum samfélagsmiðlanna. Ég gat ekki ímyndað mér að það væri „venjulegt fólk” sem væri svona hatursfullt og hrætt. Sama fólk og hélt hátíðleg jól, með tilheyrandi pakkaflóði og svínasteik og úðaði svo í sig súkkulaði um páskana, talaði nú um að hin kristnu gildi samfélagsins rúmaði ekki mosku á þessum tilteknu 103.000 ferkílómetrum jarðarinnar – eyjunni Íslandi.
Ég velti því allt í einu fyrir mér hvers vegna ég fermdist. Í sannleika sagt fermdist ég vegna þess að ég fékk tölvu. Mig langaði að fermast borgaralega, en skilyrðið fyrir gjöfum var að ég fermdist í kirkju eins og hinir. Ég sagði já við prestinn um að ég skildi gera Jesú Krist að leiðtoga lífs míns eins og allir hinir krakkarnir. Þau fengu líka pakka. Þegar ég var sextán ára skráði ég mig svo utan trúfélaga, það var eitthvað sem fór þvert ofan í mig. Ég skildi nefnilega ekki boðskapinn á þeim tíma. Fólk sagði nefnilega eitt en gerði annað. Það talaði um kærleika og fyrirgefningu en ól á gremju, afbrýðisemi og reiði
Það tók mig nokkur ár að átta mig á boðskapi kristninnar. Það var svona „aha móment”. Það var líka þá sem ég áttaði mig á því að trúarbrögð heimsins eru í raun ekki svo ólík. Þau eru líkari en við kærum okkur um. Í stað þess að opna augun fyrir því að við getum átt eitthvað sameiginlegt með múslimum, veljum við að halda því fram að Boko Haram séu fulltrúar Islam. Þeir eru hryðjuverkamenn og þess vegna hljóta allir múslimar að nauðga frænkum sínum. Ótrúlegt en satt, þá er þetta ansi algeng lógík.
Fyrir mér varð kristni, sem og öll önnur trúarbrögð, persónuleg leið að æðri mætti, að einhverju sem ég skil ekki en get notað. Ákveðnar leiðbeiningar. Pínu svona 12 spora leiðbeiningar, nema bara á eldgömlu tungumáli sem er mjög ruglingslegt og þarf að endurtúlka reglulega og gera skiljanlegt. Það rann upp fyrir mér að trúarbrögð ættu aldrei að verða að pólitískri stefnuskrá, þá missa þau gildi sitt. Þau eru persónuleg leið. Þau eru ein leið af mörgum – ekki eina leiðin.
Sumir detta svo í öfgar og brenna Harry Potter bækur eða jafnvel “nornir” í nafni kristninnar. Aðrir nota sprengjuvörpur eða sýru. Öll eiga þau sameiginlegt að túlka bækurnar undarlega. Ég sjálfur þekki margt öfgakennt fólk sem er með tækjadellu eða kaupæði og mörg okkar eiga einn háværan frændann sem talar endalaust um fótbolta eða raftæki í barnaafmælum. Þetta fólk endurspeglar hins vegar ekki sjónarmið okkar hinna, enda þótt það talar hæst eða lætur mikið fyrir sér fara. Það sama gildir um öfgafulla múslima sem hafa hátt. Þeir eru hlutfallslega fáir, en mjög háværir.
Allt í einu hætti ég að óttast múslimana í hverfinu mínu. Ég hafði satt að segja óttablandnar tilfinningar gagnvart þeim áður fyrr, jafnvel þótt ég þekkti ekki þessa nágranna mína. Ekstrabladet og BT höfðu sagt mér að þau væru hættulegt fólk. Þess vegna bauð ég þeim aldrei í kaffi. En þegar ég lærði að það væri ekkert að óttast fékk ég aðra sýn á Islam. Ég kynntist Malala Yousafzai og hennar boðskap um Islam. Hún er mögnuð stúlka. Ég ákvað að hennar sýn á Islam væri þannig sem ég sæi Islam. Það var mitt val. Ég mæli með því að þegar þú ert búin(n) að lesa þetta, þá gúgglir þú Malala Yousafzai og notir svona kortér í að kynna þér hennar sögu (hún var skotin í höfuðið af Taliban og lifði það af).
En núna, máttu endilega spyrja þig einnar spurningar: Hvers vegna er ég í fríi þessa helgi – hvað er Hvítasunna? Ef þú getur svarað rétt finnst mér að þú eigir skilið páskaegg næstu páska. Ef ekki, ættirðu að spyrja þig hvort þú sért í þessum leik til að fá frí “um hátíðarnar” og pakka eða hvort það sé einhver annar tilgangur með þessu. Og ef svo er, hver sé hinn raunverulegi boðskapur þessara frídaga, hver sé hinn raunverulegi boðskapur kristninnar?
Ef Jesús hefði lesið Kóraninn og hefði verið spurður að því hvað honum fyndist um byggingu mosku á Íslandi, held ég að hans viðbrögð hefðu verið eitthvað á þessa leið:
Daily Snow (Dagur Snær) er íslenskur leikari, búsettur í Danmörku og er frkv.stj. Teater ADHD