Skjálfandi á beinunum á fyrstu ólympíuleikunum

Þórey Edda var aðeins búin að æfa frjálsar íþróttir í fjögur ár þegar hún komst á sína fyrstu ólympíuleika, árið 2000. Fjórum árum síðar varð hún í fimmta sæti.

 

„Ég hef ekki horft á ólympíuleika í sjónvarpi í tuttugu ár af því ég var sjálf á síðustu fernum leikum, þannig ég upplifi þetta öðruvísi en áður og get fylgst meira með en þegar ég var á staðnum,“ segir Þórey Edda Elísdóttir, verkfræðingur og ólympíufari sem var um tíma í hópi fremstu kvenna í heiminum í stangarstökki. „Það rifjast ýmislegt upp, margar mjög góðar minningar“ bætir hún við.

Aðeins búin að æfa í fjögur ár

Þórey keppt sjálf á þrennum ólympíuleikum, þeim fyrstu árið 2000 og síðustu 2008, en árið 2012 var hún flokksstjóri hjá íslenska frjálsíþróttaliðinu. Hún segir upplifunina á þessum árum hafa verið mjög mismunandi. „Fyrst auðvitað eftir því hvar ég var stödd reynslulega séð og svo að vera ekki að keppa, það var mjög áhugavert.“

Þórey var 23 ára þegar hún fór á sínu fyrstu leika og hafði þá aðeins æft frjálsar íþróttir í fjögur ár. Hún hafði hins vegar góðan grunn úr fimleikum sem hann hún hafði æft í tíu ár. „Það gekk mjög vel hjá mér strax. Ég var sosum búin að æfa eins og vitleysingur alla ævi, en ég leit samt á mig sem byrjanda á mínum fyrstu ólympíuleikum. Vala Flosadóttir var stjarna á þessum tíma og gekk frábærlega vel,“ segir Þórey, en Vala lenti í þriðja sæti í stangarstökki á leikunum árið 2000. „Ég var auðvitað hálf skjálfandi á beinunum inni í ólympíuþorpinu, til að byrja með. Þetta var allt mjög yfirþyrmandi. Það hafði blundað í mér draumur frá því ég var krakki, að komast á ólympíuleika, en mig óraði ekki fyrir að hann myndi rætast.“

Full af sjálfstrausti

Fjórum árum síðar mætti Þórey hins vegar reynslunni ríkari á sína aðra ólympíuleika. Og var þá á hátindi síns ferils. „Ég hafði bætt mig mikið um sumarið og kom með allt annað hugarfar inn í leikana. Ekki með hálfgerða minnimáttarkennd heldur með sjálfstraustið í botni og ætlaði mér stóra hluti. Ég var mjög ánægð með að hafa náð fimmta sætinu, en ég fór inn í úrslitin með því hugarfari að ég ætlaði að vera í baráttunni um bronsið. Mér tókst það um tíma. En ég var mjög sátt. Þetta var næstbesti árangurinn minn á ferlinum.“

Á síðustu leikunum sínum, árið 2008, vonaðist Þórey til þess að geta farið þetta á reynslunni og náð þokkalegum árangri, þrátt fyrir að líkaminn væri ekki í nógu góðu standi. „Þó ég væri í góðu formi þá var staðan á mér allt öðruvísi en fyrir hina leikana, í undirbúningi. Og ég varð fyrir miklum vonbrigðum þar. Þannig reynslan mín af ólympíuleikunum var upp og niður,“ segir Þórey létt í bragði. En hún lauk ferlinum á þeim leikum.

„Líkaminn minn var ekki að þola þetta lengur og þá var eina í stöðunni að hætta. Ég var líka orðin 32 ára og vildi fara stofna fjölskyldu. Ég átti svo barn í september árið eftir. Þetta var á planinu,“ segir Þórey en hún er nú búsett á Hvammstanga ásamt manni sínum og tveimur sonum og starfar sem verkfræðingur á verkfræðistofu þar í bæ.

Líður vel á Hvammstanga

Hún lauk BS-námi í verkfræði meðan á íþróttaferlinum stóð en bætti svo meistaragráðunni við síðar. „Það var mjög gott að vera í verkfræðinni meðfram. Ég leit á þetta sem hálfgert öryggisnet því það er mjög algengt að það sé ekkert sem bíður hjá íþróttamönnum þegar þeir hætta.“

Þóreyju líður vel á Hvammstanga og segir lífsgæði fjölskyldunnar í raun hafa aukist til muna eftir að þau fluttu úr borginni og út á land. Þau hafi allt til alls.„Ég mæli eindregið með því að fólk prófi að flytja út á land. Maður er alltaf svo duglegur að víkka sjóndeildarhringinn í útlöndum, en maður gleymir að sjá sitt eigið land frá öðru sjónarhorni.“

 

SHARE