Þessa dagana leitar Skjár Einn að matgæðingum til að keppa í nýjum íslenskum sjónvarpsþætti, Borð fyrir fimm. Þrír dómarar mæta í matarboð og velja að lokum besta matarboðið. Einn dómaranna er Alba E. H. Hough, margverðlaunaður og virtur vínþjónn sem bíður spennt eftir að fá boð í gott partý hjá skemmtilegu fólki.
„Ég ákvað strax að slá til þegar ég var beðin um að vera með” segir Alba en auk hennar eru í dómnefnd meistarakokkurinn Siggi Hall og fagurkerinn Svavar Örn. „Mér finnst strákarnir dásamlegir og það sem gerir þetta skemmtilegt er hvað við erum hrikalega ólíkt fólk.” Alba var um tvítugt þegar hún vissi að hún vildi verða vínþjónn. „Það var stuttu eftir að ég útskrifaðist úr framleiðslunámi að veitingastjórinn minn þáverandi skráði mig í keppni án þess að segja mér frá því og lét mig vita tveimur dögum fyrir keppnina” segir Alba en hún var í framhaldinu send til að keppa sem fulltrúi Íslands í sinni fyrstu Evrópukeppni. Alba segir vínþjónanámið ekki einfalt enda vínframleiðsla mikil vísindi. „Ég lærði mestmegnis hér heima undir leiðsögn Vínþjónasamtaka Íslands og Dominique Plédel og tók bóklegu prófin mín í London. Bóklega hlið námsins er eins og botnlaus pyttur, allt frá landafræði og jarðfræði yfir í sögu og vínframleiðsla eru ákveðin vísindi ekki síður en list.“
Bragðlaukarnir verða fyrir vonbrigðum
Alba hefur bragðað ýmsan framandi mat gegnum árin en segir afstætt hvað fólki finnst skrítinn matur. „Á Íslandi borðum við hrútspunga og hval og spáum ekkert í það á meðan erlendir gestir okkar fölna gegnum farðann við tilhugsunina. Ég held það sé lítið að marka sjálfa mig þegar kemur að undarlegum mat en mér finnst kjúklingalappir í Hoi Sin sósu ansi áhugaverður matur en ég hef það sterklega á tilfinningunni að ég hafi smakkað rottu í kjúklingalíki án þess að vita af því. Ég sel það þó ekki dýrara en ég keypti það (um það bil 250 japönsk yen). Vínþjónninn Alba segir rétt vín skipta miklu máli þegar boðið er í mat. „Pörun á mat og víni þarf að ganga út á ákveðin samhljóm, fitu á móti fitu, sýru á móti ferksleika og svo framvegis. Ég myndi ekki segja að rangt vín geti rústað heilu matarboði enda þyrfti félagsskapurinn að vera merkilega pínlegur til að það gerðist. Hinsvegar getur röng pörun haft neikvæð áhrif á bæði vínið og matinn. Ef hvorugt fær að njóta sín verða bragðlaukarnir hreinlega frir vonbrigðum og ef pörunin er absúrd geta afleiðingarnar verið það eina sem fólk talar um eða man eftir.” Sjálf heldur Alba sjaldnar matarboð en hún myndi vilja. „Miðað við hversu skemmtilegt það er þá er ég alls ekki nógu dugleg við það, en vinkonur mínar eru fanta góðar í því svo ég er aldrei svöng lengi” segir Alba hlæjandi að lokum.
Opið er fyrir skráningar á bordfyrirfimm.is til 22. ágúst. Skjár Einn greiðir kostnaðinn við matarboðið og því þarf engu til að kosta. Við hvetjum alla matgæðinga til að sækja um og taka þátt í fjörinu!