ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS
—————-
Nú hefst grunnskólinn að nýju. Undantekningalítið er þar unnið bæði gott og þarft starf í þágu komandi kynslóða og samfélagsins í heild.
Undanfarin ár hefur þeirri stefnu verið haldið á lofti að nemendur hafi aðeins með sér grænmeti eða ávexti í nesti. Er þetta gert af lýðheilsuástæðum, þ.e. til að bregðast við aukinni offitu meðal barna og unglinga ásamt því tryggja að þessi samfélagshópur fái grænmeti eða ávexti á hverjum degi.
Þó að þessi markmið séu vissulega göfug þá er hins vegar svo búið að þessi forsjárhyggja hentar ekki öllum og kemur sér jafnvel illa fyrir suma. Ég á þrjú börn, þar af tvö á grunnskólaldri. Þau eru bæði mikið í íþróttum og voru t.a.m. síðasta vetur að meðaltali 8-10 klukkustundir á æfingum í viku hverri. Oftar en ekki fóru þau beint úr skólanum á æfingar og voru ekki heim komin fyrr en um kl. 16. Við foreldrar þeirra sendum þau jafnan með meira nesti þá daga og reyndum að tryggja að þau hefðu nóg að borða.
Það sem hefur hins vegar slegið okkur er að þau segjast vera orðin mjög svöng um kl. 11 á daginn, sérstaklega daga eftir erfiðar eða langar æfingar. Þau fá hádegismat í skólanum, en eins og gengur og gerist þá eru þau misdugleg að borða þar, auk þess sem þau njóta ekki alltaf skilnings með að vera ýmist lengur að borða eða þurfa ábót eða jafnvel ábætur á diskinn.
Um leið og ég skil markmið þessarar forsjárhyggju þá get ég ekki sagt að ég sé sammála henni. Ég lít svo á að það sé hlutverk mitt sem foreldris að tryggja að börnin mín geti stundað skóla, íþróttir eða önnur áhugamál, að þau séu ekki svöng og hafi næga orku til að sinna því sem þau hafa áhuga á. Ég get ekki samsinnt stefnu sem kemur í veg fyrir að ég geti uppfyllt þarfir líkama þeirra um næga orku.
Hvenær varð svo slæmt að borða samloku með osti og agúrku og drekka hreinan ávaxtasafa í nesti? Hvernig stendur á því að lifrarpylsusneið eða harðfiskbiti varð að bannvöru í skólanum? Af hverju mega börn ekki drekka mjólk í nestispásum?
Ég get ekki ímyndað mér að gaman eða auðvelt sé að kenna börnum sem eru orðin pirruð af svengd eða einbeiting þeirra tekin að minnka sökum blóðsykursskorts. Við sem foreldrar berum ábyrgð á því að börnin okkar fái nægilega mikla næringu og skólakerfið þarf að treysta okkur fyrir því að meta hvað hentar börnum okkar best. Það er vissulega réttlætanlegt að banna sælgæti eða sykraðar vörur í skólanum en að banna heilhveitibrauð með kæfu eða hafrakex með osti? Hvað er unnið með því?
Ég held að stundum fari stofnanir of langt fram í að segja okkur til verka. Það skapar óöryggi meðal foreldra og hættan er sú að við látum ekki hag barna okkar ganga fyrir. Þetta árið ætla ég að segja nei við þessari forsjárhyggju. Ég mun senda börnin mín með nesti í skólann sem ég veit að þau munu njóta góðs af. Hollt, gott, næringaríkt og saðsamt nesti.