Skrifar handrit að tveimur kvikmyndum

Sunddrottningin og leikkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir er flutt aftur heim til Íslands eftir að búið í Los Angeles í tvö og hálft ár, þar sem nam hún leiklist við New York Film Academy og reyndi fyrir sér sem leikkona. Ragga, eins og hún er oftast kölluð, hefur verið ráðin markaðsstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Fisherman á Suðureyri en mun hafa aðsetur í Sjávarklasanum í Reykjavík, þar sem við setjumst einmitt niður í spjall.

Fékk nokkur starfstilboð

„Ég var bara með visa til að starfa úti í eitt ár og á meðan ég er ekki í stórum verkefnum þar þá er fínt að koma heim í smá stund. Þriggja ára sonur minn þurfti líka að komast í leikskóla og það var léttir hvað það varðar að koma heim,“ segir Ragga til að útskýra hvað varð til þess að hún ákvað að yfirgefa borg englanna.

„Auðvitað hefði hann getað farið á leikskóla úti, en það er allt miklu þægilegra hérna heima og maður veit hvað maður fær.“ Ragga tekur þó fram að það hafi alls ekki verið erfitt að vera með lítið barn í LA. Hún segir son sinn, Breka, hafa notið sín vel og hann tali stundum um að hann vilji fara aftur til Kaliforníu.
Atli Bjarnason, maður Röggu, er enn úti að ganga frá lausum endum og pakka niður heimili þeirra til rúmlega tveggja ára. En fjölskyldan verður aftur sameinuð von bráðar.

Ragga sótti um nokkur störf þegar hún kom heim til Íslands og fékk ýmis tilboð.
„Það var mjög gaman að koma heim og þurfa ekki alveg að byrja á núllpunkti við að koma sér áfram. Gaman að sækja um störf og fá nokkur tilboð en þetta stóð algjörlega upp úr,“ segir hún og vísar þar til Fisherman.

Föðmuð af Kerry Washington

Ragga mátti eingöngu starfa við leiklist þann tíma sem hún bjó úti og segir það hafa verið strembið að hafa hendur sínar bundnar á þann hátt. „Það var ein af ástæðunum fyrir því að það var gott að koma heim. Það er erfitt að koma sér í gang þarna úti. Ég fékk vissulega mörg skemmtileg og flott verkefni, en það heldur manni ekki uppi með fjölskyldu,“ útskýrir hún.

„Ég vann til dæmis við mjög stóra mynd sem kemur út á næsta ári. Svo vann ég við fullt af flottum þáttum. Ein serían er til dæmis talin verða sú stærsta sem kemur út á næsta ári,“ segir Ragga en hún má ekki tala meira um þessi tvö verkefni. „Mig langar að segja frá öllu því þetta var svo geðveikt spennandi. En ég má allavega tala um það sem er komið út. Ég vann til dæmis við Scandal þættina og hitti meira að segja Kerry Washington, sem er ótrúlega yndisleg. Hún faðmaði mig og allt. Svo vann ég við Mistresses, Shooter og nokkra þætti af Ray Donovan.“ Hún ljómar þegar hún talar um verkefnin og það fer ekki á milli mála að hún skemmti sér vel.

Hollywood fer ekki neitt

„Auðvitað hefði ég getað byggt mig upp sem leikkonu en ég vildi ekki taka sénsinn á því með þriggja ára barn. Ef ég væri ein þá hefði ég getað borðað núðlur í öll mál og sofið á sófa hjá vini mínum. En það er ekki eins og Hollywood sé að fara neitt. Ef það kemur að því að mig langar prófa aftur, þá get ég alltaf gert það. Svo er ég með umboðsmann úti, þannig ef það kemur upp auglýsing eða eitthvað, þá get ég kannski stokkið í verkefni.“

Ragga er með tvo umboðsmenn úti, annar þeirra sérhæfir sig í að finna verkefni við kvikmyndir og hinn auglýsingar. Hún gerir samt ekki ráð fyrir að taka að sér verkefni nema það sé vel borgað og taki stuttan tíma. Hún er það ánægð í nýja starfinu og hugur hennar er 100 prósent þar. „Svo er ég reyndar komin með umboðsmann hér heima. En þetta er þannig bransi að maður fær kannski ekki vinnu í fjóra, fimm mánuði, svo kemur einn og einn dagur. Þá gæti ég kannski tekið einn frídag eða eina helgi. Ég er því alls ekki hætt.“

Snýst ekki um að vera rík og fræg

Bróðir Röggu, sem lærði í sama skóla og hún úti í LA, er einmitt að byrja í námi í Kvikmyndaskólanum hér heima og er búin að spyrja hvort hún ætli ekki örugglega að taka þátt í einhverjum verkefnum hjá sér. Þá hafa vinir og ættingjar í stuttmynda- og auglýsingagerð sett sig í samband við hana.

„Það er alveg nóg fyrir mig að fá að vera í slíkum verkefnum. Þetta hefur aldrei snúist um það að hjá mér að verða rík og fræg. Meira bara um að fá að leika. Ég mun því örugglega eyða einhverjum sunnudögum á næstunni í að vinna með bróður mínum eða vinum, eða jafnvel taka eitthvað upp sjálf,“ segir Ragga, en hún hefur verið mjög virk á Snapchat, bæði undir sínu eigin nafni og nafni Heilsupressunnar, þar sem hún fjallar um málefni er tengjast heilbrigðum lífsstíl. Margir hafa komið að máli við hana og spurt hvort hún geti gefið efni sitt út á Youtube, og það er eitthvað sem hún sér alveg fyrir sér að gera í framtíðinni. „Við lærðum grunn í kvikmyndagerð í leiklistarnáminu þannig ég kann að klippa og svona. Og svo er það auðvitað leiklist út af fyrir sig, að tala fyrir framan myndavélar,“ segir Ragga og hlær. „Slíkt myndi alveg svala minni þörf hvað varðar leiklistina.“

Þá er Ragga sjálf að skrifa handrit að tveimur kvikmyndum í fullri lengd. „Hver veit nema ég selji þau handrit eða geri eitthvað með þau. Þetta eru rómantískar gamanmyndir, ég er mest fyrir þær. Þegar maður er með barn þá er maður alltaf heima á kvöldin og fær góða pásu eftir klukkan átta. Ég nota þann tíma mikið í skrifa, þegar ég er ekki að brjóta saman þvott eða vinna,“ segir hún kímin.

Saknar ekki LA

Aðspurð hvort henni finnist erfitt að koma heim og gefa Hollywood upp á bátinn – í bili að minnsta kosti – svarar hún neitandi. „Ég sakna LA ekki neitt. Ég er ótrúlega glöð með að vera komin heim. Auðvitað var gott að hafa ströndina nálægt og hitann, en það vantaði mömmu og pabba, ömmu og afa Breka, og alla vinina. Það er bara ótrúlega gott að vera komin heim og ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun.“

Að sama skapi er Ragga mjög ánægð með að hafa farið út á sínum tíma og lært leiklist. Látið drauminn rætast. En hana hafði dreymt um að verða leikkona frá því hún var lítil stelpa. „Ég hefði aldrei fyrirgefið sjálfri mér ef ég hefði ekki farið út, lært og prófað þetta. En ég virðist alltaf dragast inn í eitthvað markaðstengt. Bæði þegar ég var sundinu og svo sem leikkona. Þar þurfti ég að markaðssetja sjálfa mig til að fá styrki og verkefni. Svo er ég núna komin í starf sem markaðsstjóri.“

Fékk að upplifa glamúrlífið

En náði hún eitthvað að upplifa alvöru Hollywood glamúrlíf á meðan hún var úti? „Já, ég fór í nokkur frumsýningarpartí og „red carpet events“ þar sem ég hitti fræga fólkið. Það er ótrúlega fyndið hvað allir eru eðlilegir. Ég held ég hafi aldrei orðið „starstruck“ nema í fyrsta skipti sem ég hitti Leonardo DiCaprio og talaði við hann. Ég hugsaði að þetta gæti ekki verið að gerast, ég var svo mikill Leo aðdándi. En svo hitti ég hann nokkrum sinnum og var næstum farin að segja: „Hey buddy“ við hann. Svo einhverra hluta vegna var ég alltaf að hitta sama fólkið, eins og Channing Tatum. Við vorum næstum því farin að heilsast. En ég talaði reyndar bara einu sinni við hann,“ segir Ragga og hlær. „Annars eru bara allir alltaf að vinna. Þegar ég var að vinna í settinu við þessa stóru bíómynd, sem ég talaði um, þá voru bara allir að vinna. Það var enginn með stjörnustæla og það var enginn glamúr í vinnunni. Og meira að segja á svona „red carpet events“ þá er fólk að vinna, það er ekki að djamma. Ég hreifst mjög mikið af þessu duglega fólki þarna í Hollywood.“
Mynd/Rut

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE