Hér á árum áður var ekki verið að skafa af því og fáum var hlíft við gagnrýni. Í tölublaði Almanaks hins íslenska þjóðvinafélags árið 1913, birtist þessi samantekt yfir nöfn sem þóttu ekki alveg við hæfi á þeim tíma. Listinn var skrifaður af Jóhanni ættfræðingi Kristjánssyni og segir hann til dæmis: „Hér verða birt mönnum til athugunar nokkur skrípaheiti sem koma fyrir í manntalinu, sem tekið var hér á landi 1. dec 1910.“
Það sem vakti áhuga minn við lestur á þessu var meðal annars það að hann nefnir þarna nöfn sem eru í notkun í dag hér á landi og þykja bara eðlileg. Þar má nefna: Andrea, Alfa, Diljá, Elí, Hannibal, Hera og fleiri.
Svolítið gaman að þessari upptalningu en sum nafnanna finnast ekki á Íslendingabók, eins og nöfnin: Gottlíf, Árína, Birgný, Daðly, Davíða, Dósoteus, Edilríður, Edvaldina (Eðvaldína er þó til), Efert, Efsenius, Flóredína, Gilsína, Gjútta, Hevin, Jóelsína, Jósabina, Koncordia, Magdís, Perúndína, Samuellína, Sesselina, Sigurbína, Sigurmundina, Steinsa, Sumarlaus, Sölvía, Teobaldur, Íunnvarð og Úrsala.
Verandi nördið sem ég er fór ég auðvitað á kaf í þetta og skráði hjá þau óalgengustu og tékkaði svo hversu margir hafa borið nöfnin sem fyrra eða seinna nafn. Bara svona af því bara. Hér er þessi listi yfir nöfn sem 6 eða færri hafa borið:
1 manneskja
hefur borið eftirfarandi nöfn sem fyrsta eða annað nafn
KVK
Nikhildur
Kristjúlía
Kjartína
Guðbjartsína
Grímea
Bibíana
Árnea
Frumrósa
Maríasína
Maína
Rósinbjörg
Steinína
Vinvelina
Þorlríður
Þorbjörnsína
Öndís
KK
Kristrúnus
Janúaríus
Guðnýus
Elívarð
Ottó- Nóvember
Parmes
Sírus
Ottoníus
Túbal
Vilinberg
2 manneskjur
hafa borið eftirfarandi nöfn sem fyrsta eða annað nafn
KVK
Oddlina
Melkjörína
Hallgrímína
Gradiana
Eyjólfsína
Epifanía
Dýrólína
Lárusína
Salmagnía
Þórólína
KK
Kristínus
Engiljón
Elífas
Malfinnur (Málfinnur)
Svanfreð
Sylveríus
3 manneskjur
hafa borið eftirfarandi nöfn sem fyrsta eða annað nafn
KVK
Sigurnanna
Markrún
Ingifinna
Markrún
Olgeirína
Sigurragna
Þorgilsína
Þorlín (Þórlín)
Þorlákína
Össurlína
KK
Liljus
Nevel
Trjámann
Þórjón
4 manneskjur
KVK
Númína
Náttfríður
Eggertsína
Númína
Septemborg
KK
Plató
5 manneskjur
hafa borið eftirfarandi nöfn sem fyrsta eða annað nafn
KVK
Einarbjörg
Bárðlína
Þórína
Októína
Össurína
6 manneskjur
hafa borið eftirfarandi nöfn sem fyrsta eða annað nafn
KVK
Hiramía
Agnea
Péturína
Mensaldrína
Það vekur athygli mína að mun fleiri „skrípanöfn“ voru kvenmannsnöfn en karlanöfn. Kvennanöfnin voru líka oft „karlanöfn“ sem búið var að setja „ína/sína/mína/lína“ fyrir aftan. Jóhann segir í lok skrifa sinna: „Það hefur opt verið brýnt, fyrir fólki að skíra börn sín sæmilegum nöfnum, en árangurslítið virðist það vera því skrípanöfnum fer fjölgandi. Prestarnir ættu að hafa einhver áhrif í þá átt, en þeir virðast flestir láta sér í léttu rúmi liggja, hversu afskræmilegum nöfnum þeir skíra, eða þá að þeir fá ekki við ráðið vitleysu fólksins.“
Hann bætir svo við: „Eru foreldrar í landinu alveg tilfinningalausir fyrir því, hver hörmung það má vera fyrir börnin þegar þau vitkast, að verða að bera þessi óhræsis ónefni.“
Ja hérna hér. Einhverjum kynni að finnast hann heldur harðorður og neikvæður, en hvað veit ég? Mörg nafnanna eru bara mjög falleg og eiginlega synd að fleiri hafi ekki skírt börnin sín þeim.
Hvert þessara nafna finnst þér fallegast? Væri gaman að heyra þitt álit hér fyrir neðan.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.