Þykkar, þéttar og íburðarmiklar; brúskaðar augabrúnir þykja svo ómissandi í dag að ungar konur, sem vilja fylgja trendinu sem vindur stöðugt upp á sig og verður undarlegra með hverjum degi virðast reiðubúnar að ganga ansi langt til að ná markmiði sínu.
Það verk sem augnbrúnablýanturinn vann samviskusamlega fyrir einhverjum misserum þykir nú ekki nóg. Nú eru augnbrúnaígræðslur komnar á markaðinn. Og ekki nóg með það; álímdar “augnbrúnakollur” eru einnig fáanlegar og þykja hin mesta prýði.
Þessi unga kona hefur undirgengist augnabrúnaágræðslu og heldur úti tískubloggi þar sem hún deilir ferlinu:
Að vísu er um nokkuð hagnýtt tískutrend að ræða, þar sem augnbrúnaígræðslur og augnbrúnakollur geta hæglega nýst konum (og körlum) sem glíma við sjálfsofnæmi, hafa nýverið lokið krabbameinsmeðferð eða hafa einfaldlega misst augabrúnirnar af öðrum orsökum.
En hégóminn er öflugur herra og miskunnarlaus. Ferlið, sem kann að heppnast ágætlega, eins og í tilfelli Ashley, er áhættusamt, sársaukafullt og tekur sinn tíma. Þó vandasamt geti verið að finna lækni á Íslandi sem fáanlegur er til að framkvæma aðgerðina, virðast erlendir kollegar innan læknastéttarinnar sæmilega reiðubúnir. Aðgerð sem þessi getur verið afar áhættusöm og felur ekki einungis í sér svæfingu heldur einnig notkun annarra deyfilyfja og heilunartíminn er talsverður.
Ashley deilir ferlinu ófeimin á tískubloggi sínu, en hér má sjá allt ferlið:
1. Komin á stofuna og bíður svæfingar; útlínur hafa verið dregnar um augabrúnirnar.
2. Hér eru hárin dregin úr hársverði Ashley til að útbúa hárágræðslu á augabrúnum.
3. Og “voila” – hér eru bútarnir valdir og snyrtir til áður en ágræðslan sjálf á sér stað.
4. Ashley hvílir hér “lúin bein” eftir svæfingu, hér er ígræðslan yfirstaðin, en augnsvæðið er ansi marið.
5. Nærmynd af aðgerðarsvæðinu, en heilunartíminn er talsverður og hætta á glóðaraugum.
6. Full þörf er á barðastórum hatti fyrstu vikurnar og svo íburðarmiklum sólgleraugum.
7. Þegar sárin eru gróin standa eftir þéttir brúskar sem þarf að snyrta vandlega.
Tískublogg Ashley má svo lesa HÉR en spurningin sem enn situr eftir er þessi; hvort ekki er einfaldara að festa kaup á góðum snyrtivörum, umfaðma gjafir náttúrunnar (eins og þéttar, náttúrulega lagaðar augnbrúnir) og láta plokkarann með öllu vera svo ekki verði þörf á sársaukafullum ígræðslum þegar fram í sækir eins og raunin varð í tilfelli stúlkunnar hér að ofan sem þurfti á ígræðslum að halda vegna ofnotkunar plokkara.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.