Að skella í eina skúffuköku svona um helgar er bara yndislegt. Alltaf svo gott að eiga hana fyrir fjölskylduna eða þá sem kíkja við í kaffi um helgar. Þessi uppskrift er eitthvað sem ég fann í einni af gömlu uppskriftarbókunum sem ég erfði eftir hana ömmu Lólý mína svo að mér fannst upplagt að deila henni með ykkur hérna á síðunni.
3 egg
3 dl sykur
4 ½ dl hveiti
3 tsk lyftiduft
170 ml grænmetisolía
2 tsk vanillusykur
2 msk kakó
1 ½ dl AB-mjólk/súrmjólk
Þeytið saman egg og sykur þangað til það er létt og ljóst. Blandið þurrefnum saman í skál og bætið þeim út í eggjablönduna hægt og rólega. Hellið síðan AB-mjólkinni og olíunni út í. Blandið þessu vel saman. Ég nota olíu frekar en smjör eða smjörlíki af því að mér finnst allar kökur verða miklu mýkri og síður þurrar ef ég nota olíu.
Hellið í smurða ofnskúffuna og bakið við 180°C í 20-25 mínútur.
Glassúr ofan á kökuna
5 dl flórsykur
6 msk brætt smjör
6 msk sterkt kaffi
2 msk kakó
3 tsk vanilludropar
kókosmjöl
Blandið saman öllu í skál og hellið yfir volga kökuna. Dreifið kókosmjöli yfir.
Þú getur fundið fleiri uppskriftir frá Lólý hér og hérna finnur þú heimasíðu Lólý.is