Húsbandið mitt er í svona veiðiklúbb, ég hef að vísu aldrei séð fisk en hann hefur komið heim með allskonar góðar uppskriftir. Ég held að þeir félagar séu bara að borða í þessum ferðum, alla vega hafa þeir fitnað um sig miðjan á þessum árum sem félagsskapurinn hefur verið til!
Þessi skyrkökuuppskrift kom heim með honum fyrir mörgum árum og hefur verið gerð af honum við öll hátíðleg tækifæri í fjölskyldunni.
Uppskrift:
1 pakki gingerkex frá Lu
150 gr smjör
1.5 líter rjóma
1 stór vanilluskyr
súkkulaðispænir
Aðferð:
Lu kexið er mulið smátt, hann setur það í poka og mer með kökukefli, mylsnunni er svo komið fyrir þétt í botni á eldföstu móti eða öðru sambærilegu.
Smjörið brætt og helt svo jafnt yfir mylsnuna, passa að bleyta vel allri mylsnunni.
Rjómi þeyttur og svo er skyri bætt út og blandað vel saman. rjóma/skyrblöndunni smurt yfir smjörbleytta kexmylsnuna.
Gott að setja súkkulaðispænir yfir allt eða sultu, bara smekksatriði.
Sett í frysti í ca. 20 mín og svo bara njóta.
En svona svo ég sé ekki leiðinleg þá hefur alveg komið fyrir að hann komi með fisk heim.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!