Slímhimnubólga er bólga eða erting í slímhimnunni sem er innan á augnlokinu og einnig á hvítu augnanna. Algengt einkenni er mikil táramyndun. Slímhimnubólga í augum er algeng hjá börnum. Margar orsakir geta legið að baki sjúkdómsins og miðast meðferðin að orsakaþættinum.
Yfirleitt stafar engin hætta af sjúkdómnum nema í vissum sjaldgæfum tilfellum þar sem sýking slímhimnu hefur breiðst yfir á hornhimnu og valdið alvarlegri hornhimnubólgu.
Hver er orsökin?
Orsakir sjúkdómsins geta verið margar. Greint er á milli:
Smitandi slímhimnubólga:
- Veirusýking. Kvefveira er algeng orsök bólgu í auga. Aðrar veirur geta einnig orsakað sjúkdóminn, m.a. áblástursveiran, flensuveiran og hlaupabólu-ristilveiran.
- Bakteríusýking. Meðal annars klasahnettlu- og keðjuhnettlubakteríurnar.
- Sveppir. Mjög óalgeng orsök.
- Sjúkdómurinn smitast við beina snertingu sem og óbeina, þ.e. bakterían berst yfirleitt með höndum til augnanna. Hvað varðar nýfædd börn, þá geta þau smitast í fæðingunni af klamydíu eða í enn færri tilfellum lekanda. Hér áður fyrr var börnum gefið silfurnítrat til að forðast bakteríusmit eftir fæðingu
Aðrar orsakir:
- Bólga í auga af völdum ofnæmis gegn m.a. frjókornum, rykmaurum eða hreinlætisvörum. Þessu getur fylgt ofnæmiseinkenni frá öndunarfærum og húð.Þetta nefnist ofnæmisviðbrögð.
- Erting í auganu vegna t.d. útfjólublárra geisla („snjóblinda“, „rafsuðublinda“), ryks, aðskotahluta eða ýmissa efnablanda.
- Seinkun á þroska táraganga barna þannig að augað tárast stöðugt, sem getur orsakað bakteríusýkingu. Táragöngin þroskast og opnast venjulega á fyrstu 12 mánuðunum eftir fæðingu.
- Þurrkur í augum án tengsla við aðra sjúkdóma eða í tengslum við sjúkdóma svo sem Sjögrens heilkenni.
- Í tengslum við aðra sjúkdóma, t.d. liðagigt, psoriasis og Sjögrens syndrome. Þessir sjúkdómar geta valdið einkennum frá augum.
Hver eru einkennin?
- Bólga í auga af völdum bakteríusýkingar lýsir sér í greftri í öðru eða jafnvel báðum augum. Sýkingin kemur þó yfirleitt fyrst í annað augað. Augað verður rautt, sérstaklega undir neðra augnloki. Augnlokin klístrast saman, sérstaklega eftir svefn og skorpur geta myndast í augnhvörmum. Þessu getur einnig fylgt sviði og óþægindi.
- Bólga í auga af völdum veirusýkingar leggst annað hvort á annað eða bæði augum. Augað verður vatnskennt og þessu getur fylgt graftarmyndun.
- Bólga í auga af völdum ofnæmis lýsir sér í kláða en einnig sviða og aðskotahlutstilfinningu.
- Bólga í auga af völdum útfjólublárra geisla lýsir sér í verkjum, mikilli aðskotahlutstilfinningu, óþægindum í birtu, höfuðverk og augað tárast.
- Bólga af völdum aðskotahluta eða ryks veldur ertingu, táramyndun og þeirri tilfinningu að eitthvað sé í auganu.
- Augnþurrkur veldur þurrkatilfinningu, stirðleika í augum en einnig sviða, kláða, aðskotahlutstilfinningu og augnþreytu.
Hvernær skal hafa varann á?
Ef sjúkdómurinn versnar, t.d. með meiri graftarmyndun, miklum óþægindum í birtu, verkjum eða skerðingu á sjón ber að hafa samband við lækni. Það á einnig við þrátt fyrir að sjúklingurinn sé í meðferð.
Hvað er hægt að gera til að forðast bólgu í auga?
- Þvoið hendurnar eftir að hafa snert einstaklinga með bólgið auga.
- Notið hlífðargleraugu ef þið eruð mikið í sterku sólarljósi þar sem hætta er á endurkasti útfjólublárra geisla svo sem uppi á jöklum eða þar sem verið er að rafsjóða.
- Einnig skal alltaf nota hlífðargleraugu þegar hætta er á aðskotahlutum.
Holl ráð
- Athugið að slímhimnubólga getur smitast á milli augnanna, yfirleitt þegar augun eru nudduð.
- Þvoið gröft og jafnvel hrúður af með volgu vatni eða saltvatni, það dregur einnig úr einkennum.
- Notið einnota vasaklúta þegar þið þurrkið ykkur um augun og hendið þeim á eftir. Það dregur úr smithættunni.
- Hendið bakteríudrepandi augnlyfjum þegar meðferð er hætt.
- Einstaklingar með bólgu í auga ættu að nota eigin handklæði.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Læknirinn byggir greininguna á sjúkdómseinkennunum og tekur jafnvel sýni úr auganu. Erfitt getur verið að greina á milli bólgu í auga af völdum bakteríusýkingar og bólgu í auga af völdum veirusýkingar.
Hvert er sjúkdómsferlið?
Við væga bólgu hverfa einkennin eftir 2-3 daga meðferð. Bólga af völdum veirusýkingar getur þó varað lengur. Ef bólgan er af völdum áblástursveirunnar getur hún tekið sig upp aftur. Ef bakteríusýking kemst í bólgu af völdum veirusýkingar getur það haft alvarlegri afleiðingar í för með sér, bólgan getur dreift sér og jafnvel valdið skaða á hornhimnu.
Hver er meðferðin og hvaða lyf eru í boði?
- Bólga af völdum bakteríusýkingar er meðhöndluð með sýkladrepandiaugnlyfjum. Algengt er að meðhöndla með fusidinsýru (Fucithalmic) eða klóramfenikóli (Isopto Fenicol 0,5% eða Chloromycetin).