Lilja Katrín Gunnarsdóttir lét gamlan draum rætast og fór á undankeppni Eurovision í Stokkhólmi ásamt vinkonu sinni. Þær voru í heimasaumuðum Abba-búningum og vöktu mikla athygli erlendra fjölmiðla
„Þetta er betra en í mínum villtustu draumum,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir þegar blaðamaður nær tali af henni þar sem hún situr í sjálfu Eurovision-þorpinu í Stokkhólmi þar sem keppnin fer fram. En Lilja fór ásamt vinkonu sinni, Írisi Dögg Pétursdóttur, að sjá Gretu Salóme Stefánsdóttur flytja framlag Íslendinga í fyrri undankeppninni á þriðjudag. Þá voru þær einnig á dómararennslinu á miðvikudag, en síðari undankeppnin fór fram á fimmtudag.
Stenst allar væntingar
Lilja segir að hana hafi dreymt um að fara á keppnina í þrjátíu ár, eða alveg frá því Ísland tók fyrst þátt í Eurovison árið 1986 með Gleðibankanum. „Þetta er að standast allar væntingar,“ segir hún og virðist gjörsamlega vera að springa af gleði.
„Besta vinkona mín býr í Svíþjóð og fyrir ári síðan sagði ég við hana: „Ef Svíþjóð vinnur þá förum við á Eurovision!“ Måns heyrði greinilega í okkur,“ segir Lilja og vísar þar til sigurvegara síðasta árs, Måns Zelmerlöw.
Spillti ekki gleðinni
Eins og flestir vita þá komst Ísland ekki áfram og því verðum við ekki með í aðalkeppninni í kvöld. En sú staðreynd að nafn Íslands kom ekki upp úr einu af umslögunum tíu spillti ekki gleðinni fyrir þeim stöllum. Lilja viðurkennir reyndar að þetta hafi verið fúlt, en henni finnst bara of gaman að fá að fara á keppnina til að láta það á sig fá. Svo verða þær ekki á sjálfri aðalkeppninni þannig þær eru bara ánægðar með að hafa séð íslenska atriðið á sviði.
Betri grafík í rússneska laginu
„Það kom alveg á óvart að við kæmumst ekki áfram þar sem Greta negldi þetta. Það er alltaf leiðinlegt þegar Ísland kemst ekki áfram. En rússneski gaurinn náttúrulega rústaði okkur í grafík. Flengdi Gretu á beran bossann „pun intended“,“ segir Lilja hlæjandi. En margir muna eflaust eftir því þegar Fréttablaðið birti mynd af Gretu Salóme á æfingu í síðustu viku þar sem glitti í rasskinnarnar á henni undan búningum sem hún var í. Myndin var fengin úr myndabanka keppninnar en var svo fjarlægð þaðan að beiðni íslenska hópsins, sem fékk einnig afsökunarbeiðni frá fjölmiðlasviði Eurovision.
Mikil líkindi þóttu með grafík íslenska og rússneska lagsins, en það er mat Lilju að grafíkin í rússneska atriðinu hafi komið mun betur út.
Heimsfrægar í Aserbaídsjan
Algengt er að æstir Eurovision-aðdáendur klæðist búningum, bæði á keppnunum sjálfum og í Eurovision þorpinu. Lilja og Íris létu ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. Þær komu vel undirbúnar að heiman í Abba búningum, sem slógu að sjálfsögðu í gegn. „Búningarnir voru heimasaumaðir og vöktu gríðarlega athygli. Það voru allir að stoppa okkur og taka myndir. Líka erlendir fjölmiðlar. Það þekktu allir búningana. Við erum pottþétt orðnar heimsfrægar í Tyrklandi og Aserbaídsjan núna,“ segir Lilja sem virðist nokkuð sannfærð um að tilboð um að troða upp á hinum ýmsu skemmtunum í þessum löndum fari nú að hrúgast inn. Hana dreymir að minnsta kosti um það.
Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.