Slysalaus áramót, já takk!

Öll viljum við geta notið ánægjunnar sem flugeldar gefa okkur um hver áramót. Þeir eru ekki hættulausir og til að koma í veg fyrir slys er mikilvægt að fara eftir öllum leiðbeiningum sem þeim fylgja.

Pössum börnin vel, þau þekkja ekki hætturnar

Börn eiga ekki að umgangast flugeldavörur nema undir eftirliti fullorðinna. Foreldrar verða að vera meðvitaðir um þá hættu sem fylgja flugeldum og vita hvað börn þeirra eru að fást á þessum tíma.

Passa þarf vel upp á börnin, þau þekkja hætturnar ekki eins vel og fullorðnir. 12 ára og yngri mega ekki kaupa neinar flugeldavörur og mjög takmarkað er hvað 12 til 16 ára mega kaupa. Þau mega kaupa vörur sem eru ekki með neinum aldurstakmörkunum á eins og vörur sem ætlaðar eru til notkunar innan húss og má nota allan ársins hring.

Alvarlegustu slysin vegna fikts

Flest alvarlegustu slysin verða vegna fikts. Mjög hættulegt er að taka flugelda í sundur, búa til heimagerðar sprengjur eða breyta eiginleikum flugeldavara á einhvern annan hátt. Flugeldar og smádót eru ekki leikföng og ekki skal nota þá í hrekki. Oft verða slæm slys af þessum völdum þ.m.t. heyrnaskaðar. Áfengi og flugeldar fara aldrei saman.

Flugelda á að geyma á þurrum stað, þar sem börn ná ekki til og ekki er mælt með að geyma þá milli ára. Lesið vel allar leiðbeiningar sem fylgja flugeldum áður en skotið er upp. Flugeldagleraugu eiga allir að nota, sama hvort þeir eru að skjóta upp eða bara að horfa á.

Sjá einnig: Áramót og áramótaheit

Að ýmsu að hyggja þegar kveikt er í flugeldum

Hendur þeirra sem skjóta upp eða eru með handblys eru best varðar ef notaðir eru skinn- eða ullarhanskar. Þegar skotið er upp á að geyma flugeldana fjarri þeim stað sem skotið er upp á og aldrei á að hafa flugeldavörur í vasa. Skjótið upp á opnu svæði um 20 m fjarlægð frá húsum, bílum og einstaklingum og látið þá sem fylgjas með standa vindmegin við skotstað.

Aldrei má kveikja í flugeldum meðan haldið er á þeim, aðeins á sérmerktum handblysum Nauðsynlegt er að hafa trausta undirstöðu undir rakettur áður en þeim er skotið upp. Þá er einnig nauðsynlegt er að hafa stöðuga undirstöðu undir standblys og skotkökur og athuga þarf að þau þurfa mikið rými. Aldrei má halla sér yfir vöru sem verið er að bera eld að, tendra skal á kveiknum með útréttri hendi og víkja strax frá. Ef flugeldur springur ekki skal hella vatni yfir hann, en ekki reyna að kveikja aftur í honum.

Höfum dýrin í huga þegar flugeldar eru sprengdir sérstaklega hunda, ketti og hesta. Best er að halda þeim innandyra sé þess kostur og gott að hafa kveikt á útvarpi og byrgja glugga hjá þeim.

Brunasár á að kæla strax með vatni.

Góð ráð um meðferð flugelda:

  • Geymið skotelda á öruggum stað.
  • Öryggisgleraugu vernda augu og ullar- og skinnhanskar vernda hendurnar.
  • Verið aldrei með flugelda í vasa.
  • Áfengi og flugeldar fara illa saman.
  • Hafið sérstakar gætur á börnum.
  • Hugið að heimilis- og húsdýrum.
  • Lesið vel leiðbeiningar sem fylgja flugeldum.
  • Hallið ykkur aldrei yfir flugelda.
  • Kveikið í með útréttri hendi.
  • Víkið frá um leið og logi er kominn í kveikiþráðinn.
  • Reynið aldrei að kveikja aftur í flugeldum sem áður hefur verið kveikt í. Helli vatni yfir.
  • Brunasár á að kæla strax með vatni.
  • Börnum yngri en 16 ára eru ekki seldir flugeldar. Fullorðnir skulu ávallt aðstoða börn með þessa vöru.
  • Athugið að standa ekki nærri er flugeldar eru sprengdir. Hávaði frá þeim getur skaðað heyrnina.
  • Mikilvægt er að hafa nægt rými þegar valinn er skotstaður. Hæfilegt er að hafa a.m.k. 20 metra fjarlægð frá húsum.
  • Nauðsynlegt er að hafa trausta undirstöðu undir rakettur áður en þeim er skotið upp.
  • Flugelda má allsekki handleika eftir að kveikt hefur verið í þeim því þeir geta sprungið fyrirvaralaust. Hella skal vatni yfir þá.
  • Aldrei má kveikja í flugeldum meðan haldið er á þeim. Aðeins má halda á sérmerktum handblysum.
  • Nauðsynlegt er að hafa stöðuga undirstöðu undir standblys og skotkökur, og athuga þarf að þau þurfa mikið rými.
  • Flugeldar og smádót eru ekki leikföng og ekki skal nota það í hrekki. Oft verða slæm slys af þessum völdum.
  • Flest alvarlegustu slysin verða vegna fikts. Mjög hættulegt er að taka flugelda í sundur og búa til heimagerðar sprengjur.
  • Höfum dýrin í huga þegar sprengdir eru flugeldar. Halda skal dýrum innandyra þar sem þau heyra sem minnst í sprengingunum. Hundar, kettir og hestar eru sérstaklega viðkæm.
  • Víkja skal vel frá eftir að búið er að kveikja í flugeldunum. Börn skulu ávallt vera undir eftirliti fullorðinna í návist flugelda. Allir eiga að hafa öryggisgleraugu, einnig þeir sem horfa á.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE