Söfnun eftir stórbruna

Í ljósi þess gríðarlega tjóns sem fjölmargar fjölskyldur og einstaklingar urðu fyrir vegna eldsvoðans í Miðhrauni í Garðabænum í síðustu viku, höfum við ákveðið að setja í gang fjársöfnun til að styrkja þá, sem áttu eigur sínar í geymslunum hjá Geymslur.is. Mörg þeirra standa nú uppi algerlega allslaus og eru aftur komin á byrjunarreit við að búa sínum fjölskyldum íbúðarhæf heimili.

Það er ljóst að yfir 300 geymslur brunnu til kaldra kola og ekki fást nema 15% bætt af hverju tjóni. Sumir fá jafnvel engar bætur en öruggt er að mjög margir hafa orðið fyrir verulegum fjárhagslegum skaða.

Ákveðið tjón verður þó aldrei hægt að bæta en það er tilfinningalegs eðlis, ljósmyndir, erfðagripir, verk barnanna, listaverk, hljóðfæri, ýmis söfn o.s.frv.

Við Íslendingar erum rúmlega 300 þúsund og ættum öll að geta lagt hönd á plóginn og aðstoðað þessar fjölskyldur við að koma undir sig fótunum á ný. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!

Þrátt fyrir að allir séu vitaskuld þakklátir að engan sakaði í brunanum og að einungis um veraldlega hluti hafi verið að ræða, er það engu að síður svo að aldrei verður hægt að bæta fyrir minningar og tilfinningar tengdum þeim hlutum sem við höfum í kringum okkur á heimilum okkar og í nánasta umhverfi. Við vitum öll hversu dýrt það er að lifa og búa á Íslandi og svona fjárhagslegt skipbrot getur haft mjög mikla erfiðleika í för með sér.

Flest okkar hafa tengsl á einn eða annan hátt þegar svona áföll verða. Við eigum vini og/eða fjölskyldur sem misstu allar sínar búslóðir eða eigur sínar og önnur okkar hefur einnig reynslu af því að hafa farið í gegnum missi vegna bruna. Hugur okkar er því hjá fólkinu sem varð fyrir þessu áfalli og við vonum því innilega að allir sem vettlingi geta valdið séu tilbúnir að sýna samkennd sína í verki með þessum fjölskyldum og einstaklingum og hvetjum alla til þess að leggja sitt af mörkum við að bæta há fjárhagsleg tjón sem ekki fást bætt útúr tryggingunum.

Söfnunin verður í gangi til 10. maí næstkomandi og um helgina verður opnaður Facebook hópur fyrir velunnara hennar þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi hennar. Við munum tilkynna vikulega hvernig söfnuninni framvindur inni í þessum hóp þar til styrkirnir verða greiddir út til þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem misstu sínar eigur í brunanum. Höfum við nú þegar leitað til forsvarsmanna „Geymslur.is” til þess að fá nauðsynleg gögn yfir þessa aðila svo við getum skipt upphæðinni á milli þeirra á sanngjarnan hátt.

Við vonumst auðvitað innilega til þess að allir leggist á eitt og styrki málefnið!

Við biðjum ykkur nú kæru vinir um að deila þessum pósti áfram og hvetja alla í kringum ykkur til þess að leggja lóð sín á vogarskálarnar og millifæra á þennan söfnunarreikning í Landsbanka Íslands. Öll upphæðin sem safnast saman mun renna óskipt til þeirra sem urðu fyrir þessu áfalli.

Upphæðirnar mega vera allt frá 1000 kr.- og upp úr því margt smátt gerir eitt stórt!

Vinsamlegast leggið inn á þennan reikning 0101-05-010074 kt: 201075-2979

MUNA að DEILA út um allt Takk, Takk og aftur Takk <3

Kristjana Björg Sveinsdóttir & Rannveig Ernudóttir

SHARE