Sóley þarf aðstoð! – Hjálpumst að!

Sóley, sem er dásamleg fjögurra ára English Bulldog tík er veik og þarf aðstoð.


Það er einstaklega erfitt að horfa upp á dýrin sín kveljast eða vera veik, ástin sem maður ber til þeirra og þau til okkar er svo sterk að það er fátt sem jafnast á við hana. Gæludýrin eiga sérstakan stað í hjarta og huga eigenda þeirra og það er algjörlega gagnkvæmt. Hundar verða vinir manns, byggja mann upp, þroska mann, kenna manni ótal margt og eru svo í þokkabót alltaf til staðar með sína óeigingjörnu og tæru ást!

Það er því oft sem að eigendur dýra standa frammi fyrir alls kyns hindrunum þegar að kemur að því að hjálpa þeim og oftar en ekki er það kostnaðurinn. En það er einmitt það sem gerðist hjá eigendum Sóleyjar.

Sóley byrjaði að fá flogaköst á síðasta ári og varð að fá sterk lyf til að koma í veg fyrir þau. Lyfin virtust þó ekki ná að hjálpa nóg því á síðustu 6 mánuðum fór hún að fá flogaköst af og til. Það gerðist svo fyrir fáeinum dögum að Sóley fékk um 9 flogaköst á einum degi og varð mjög ólík sjálfri sér.

Eftir læknisskoðun kom svo í ljós að hundurinn yrði að fara í rannsókn á höfði sem myndi kosta 120.000 krónur sem er vissulega mjög dýrt. Fjölskyldan er þó staðráðin í því að vilja allt gera fyrir hundinn til að láta henni líða betur.

 

Til að auðvelda fjölskyldunni að standa undir þeim kostnaði ákváðu systurnar María Greta – átján ára, Hrafnhildur Eva – fjórtán ára og Sara Guðrún – ellefu ára að koma af stað söfnun á netinu fyrir Sóleyju og hafa þær náð að safna 27% af upphæðinni sem vantar.

Það vantar þó enn svolítið upp á svo mér fannst tilvalið að aðstoða fallegu Sóleyju með því að pikka í trausta lesendur hun.is

Ef þú vilt leggja Sóleyju og fjölskyldu hennar lið getur þú gert það hér. Margt smátt gerir eitt stórt!
Ef þú hefur ekki tök á því að styrkja Sóleyju núna veit ég að hún yrði þér mjög þakklát ef þú myndir deila söfnuninni sem víðast svo að sem flestir getið séð hana.

 

SHARE