Sóley Kristjánsdóttir var gestur Fullorðins hlaðvarps nýverið og sagði mér frá lífi sínu hingað til. Hún kemur af alkóhólísku heimili og byrjaði sjálf að drekka í 9. bekk og fljótlega fór hún að reykja gras.
„Himnarnir opnuðust þegar ég byrjaði og það virkaði mjög vel fyrir mig að nota hugbreytandi efni og ég var „stóner“ af guðs náð, ef maður getur sagt svo. Lengi vel náði ég svosem að raða lífinu saman og vera í neyslu. Ég kláraði stúdentspróf í FB og þá var maður að læra til 5 á nóttunni og svo fór maður á rúntinn á kvöldin. Þegar ég svaraði í heimasímann þá var lykilorðið að „chilla“ og þá fórum við á rúntinum að reykja og fara í bíó,“ segir Sóley og bætir við að neyslan hafi aukist hægt og rólega og um árið 2008 fór að renna upp fyrir henni að þetta væri ekki alveg að ráða við þetta.
„Ég var í brasi næstu 4 árin þar sem ég er að reyna að vera edrú og næ að vera edrú og næ ekki að vera edrú. Ég var ekki alveg búin að sætta mig við að neyslan mín væri raunverulega vandamálið,“ segir Sóley og segir jafnframt að hún hafi þráð það mjög heitt að hún væri ekki fíkill.
Fór í meðferð 2012
Það var svo í febrúar 2012 sem Sóley lét keyra sig í meðferð í fjórða skipti og segir að það hafi verið í fyrsta skipti sem hún var virkilega hrædd: „Ég hafði aldrei verið hrædd og var alltaf viss um að ég gæti látið þetta ganga. Ég var komin með háskólagráðu og var að vinna sem stjórnandi og keypti mér íbúð svo ég hélt að allt væri í lagi.“
Sóley segist hafa lifað tvöföldu lífi og þegar það gekk ekki lengur segist hún hafa „krassað“.
Fyrstu tvö árin edrú segir Sóley að hafi, eftir á að hyggja, verið mjög erfið. Sjálfsmyndin í molum og hún þurfti að finna sig aftur. Hún fór í mikla sjálfsvinnu og það hafi verið vel þess virði og lifi lífinu með það að markmiði að líða það vel í eigin skinni að hana langi ekki í breytt ástand.
Kom út úr skápnum 31 árs
Sóley er samkynhneigð og var orðin 29 ára þegar hún fór að gruna að það gæti verið raunin: „Ég var í partýi og var spurð af vinkonu vinar síns hvort hún hefði aldrei kysst stelpu. Ég hafði aldrei séð neinn tilgang í því að kyssa stelpu. Það myndi ekki leiða til neins. Þær vöktu ekki þannig áhuga hjá mér.“ Þessi vinkona vinar hennar kyssti Sóleyju og það segir hún að hafi kveikt á einhverjum kenndum hjá sér.
„Það líður alveg eitt og hálft ár þar sem ég er „bi“ og ég var bara að kanna hlutina. Ég var alltaf frekar hrædd við stelpur og ef þær nálguðust mig hörfaði ég í burtu,“ segir Sóley og bætir við að það hafi ekki verið fyrr en hún var 31 árs sem hún kom út úr skápnum: „Þegar ég svaf hjá stelpu í fyrsta skipti þá kom púslið sem ég vissi ekki að vantaði. Ég hafði ekki hugmynd. Núna skildi ég allt saman.“
Ef þú vilt heyra viðtalið í heild geturðu smellt hér og skellt þér á áskrift.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.