Ég er í kór. Já það vita það alls ekki allir en að mæta á kóræfingar einu sinni í viku og að syngja á tónleikum er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Mér hefur alla tíð þótt gaman að syngja en verið feimin við það. Ég átti það til að skálda upp texta þegar ég var einhversstaðar alein í náttúrunni og þeir voru yfirleitt mjög dramatískir.
En já, ég er búin að vera í mörg ár í kórnum Vocal Project og ætla mér ekkert að hætta. Það hefur verið sannað með mörgum rannsóknum að það, að syngja saman, bætir bæði líkamlega og andlega heilsu.
Þá er átt við að söngurinn:
- rói hjartað
- hjálpi til við heilbrigða öndun
- bæti minni
- minnki einkenni kvíða og þunglyndis
- auki dópamín og serótónín framleiðslu
- hjálpi þér að eignast fleiri vini
Þetta er allt satt og svo miklu meira til.
Ég hef alla tíð verið með sviðskrekk, þ.e.a.s. alveg síðan ég gleymdi línunum mínum í skólaleikriti og fannst ég svo mikill auli að ég gæti aldrei horft framan í sveitunga mína framar, en ég ólst upp í Árneshreppi á Ströndum.
Ég segi ekki að ég sé laus við sviðskrekkinn en þessi sjúklegi ótti er farinn. Á fyrstu tónleikunum sem ég söng með kórnum hafði ég sett mér það markmið að dilla mér aðeins og reyna að virka afslöppuð. Þessir tónleikar voru teknir upp og þegar ég horfði á þá sá ég að ég var pinnstíf og skelfingu lostin allan tímann. En ég upplifði mig ekki þannig. Frekar fyndið.
Kórstjórinn okkar í Vocal Project er Gunnar Ben, sem er eitt mesta tónlistar„séní“ sem Ísland hefur alið af sér. Hann er örugglega best þekktur fyrir hanakambinn og hljómsveitina sem hann stofnaði með fleirum, Skálmöld. Hann getur spilað á kórinn eins og risastórt hljóðfæri. Alveg magnaður.
Við, ásamt öllum öðrum í heiminum, urðum fyrir miklum áhrifum vegna Covid-19 og gátum ekki æft mikið og lítið verið að hittast en við afrekuðum þó að taka upp eitt lag. Það gerðum við með því að syngja allir heima hjá sér og svo var þetta sett saman.
Við höfum verið að keyra okkur í gang aftur síðustu misseri og ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa því hvað ég, og fleiri meðlimir, erum þakklát fyrir að allt sé að „verða eins og það var“. Við ráðumst auðvitað ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og ætlum að halda tónleika í Hörpu annað kvöld. Gunnar Ben stjórnar okkur af sinni einskæru snilld og svo verður með okkur frábær hljómsveit, en hana skipa Jón Geir Jóhannsson á trommur, Guðmundur Stefán Þorvaldsson á gítar, Kjartan Valdemarsson á hljómborð og Sam Pegg á bassa.
Það verður fjölbreytt úrval á lagalistanum hjá okkur og syngjum við lög eftir Guns N’ Roses, Dolly Parton, Led Zeppelin, Whitney Houston og fleiri og fleiri.
Það eru örfáir miðar eftir og hver að verða síðastur að ná sér í miða en þeir eru bæði á tix.is og harpa.is.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.