Stundum er lífið bara ósanngjarnt og ég skil bara ekkert í því af hverju.
Ég er sorgmædd og reið út í þetta helvítis krabbamein sem hefur herjað á minn heittelskaða í núna um 24 ár með hléum en er núna komið til að vera ef ekki finnst kraftaverkalyfið!
Við eigum að baki 28 ár sem hafa rétt eins og hjá flestum verið súr og sæt en þroskað okkur saman í það að vera sterk saman og klettarnir í lífi hvors annars.
Það hefur tekið á að hafa þennan þriðja aðila í hjónabandinu ( krabbameinið) og það reynir ennþá meira á núna þegar þriðja hjólið er að verða plássfrekara og ógnvænlegra.
Eins og ég sagði á áðan mér finnst þetta ömurlega ósanngjarnt og glatað, helvítið hefur víðtæk áhrif á líf okkar svo miklu meira en þeir sem ekki þekkja stöðuna gera sér grein fyrir. Lífið snýst um lyfjagjafir og bið, óvissu og svo að setja upp styrkinn og blása í gegnum nefið og gera allt sem í okkar valdi stendur til að njóta andartaksins og við erum nokkuð góð í því en svo koma dagar þar sem það tekst ekki og sorgin hellist yfir mann.
Ég átti þannig dag í gær var bara þreytt og leið, já og hrædd og reið. Grét sárt og fannst ég ekki nógu mikill klettur þar sem minn heittelskaði kom heim í þetta ástand. Ég sem á alltaf að vera sterk fyrir hann, eiginkona krabbameinssjúklings hefur mörgum hlutverkum að gegna og eitt þeirra er að vera klettur.
Minn heittelskaði fagnaði þó tárunum mínum og fannst gott að ég skyldi bogna og hleypa þessu öllu út. Óttanum um hvað væri framundan, samviskubitinu um að vera fara erlendis í viku í febrúar og vera ekki til staðar ef hann verður veikur eftir nýju lyfjagjöfina.
Eftir á var sannarlega gott að gráta og hleypa út óttanum, reiðinni og öllu sem fylgdi, ég veit að tárin eru demantar sálarinnar og heilandi. Við erum jú manneskjur og tilfinningar eðlilegur partur af tilverunni.
Hlutverkið eiginkona krabbameinssjúklings og móðir og amma barnanna hans er bara drulluerfitt á köflum en það er mikil blessun að við hjón erum sterk eining og börnin okkar líkjast okkur.
Flesta daga tekst okkur að lifa eðlilegu lífi þið vitið vinna, éta og sofa og erum afar þakklát fyrir hversdagslegu hlutina sem maður kvartaði yfir áður.
Aðalástæða þess að ég sest niður og rita þessar línur og berskjalda mig svona er til að minna okkur öll á að sýna aðgát í nærveru sálar og vera góð við hvort annað. Þú veist í raun aldrei hvað önnur manneskja er að ganga í gegnum og kanski er það eina sem hún þarf vinátta og stuðningur.
Verum kærleiksrík við náungan og njótum andartaksins.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!