Gleymdu aldrei að taka batteríin úr vibratornum, áður en þú leggur af stað í ferðalag. Í guðs bænum ekki gleyma því.
Annars gæti farið fyrir þér eins og hinni tvítugu Amöndu, sem fyrir nokkrum dögum síðan lagði af stað í ferðalag á vegum SAS milli Svíþjóðar og Króatíu, pakkaði samviskusamlega niður …. og var handtekin á flugvellinum skömmu fyrir flugtak, grunuð um áætluð hryðjuverk.
Titrandi vibratorinn var talinn vera sprengja
“Ég var á leið upp landganginn þegar ég heyrði röddu í kallkerfinu sem bað mig að staldra við og gefa mig umsvifalaust fram” sagði Amanda í viðtali við sænska miðilinn Expressen á þriðjudag. “Þegar ég sneri við, furðu lostin, heyrði ég öryggisverðina ræða um mig gegnum kalltækin sín sem þeir bera á mjöðminni. Ég hafði enga hugmynd um hvað var að gerast og gaf mig samstundis fram.”
Niðurlægingin náði hámarki frammi fyrir sjóðheitum öryggisverðinum
Þegar Amanda gaf sig á tal við öryggisvörð var hún samstundis beðin um að koma afsíðis, öryggisgæslan hefði orðið vör við “titrandi hlut” í farangri hennar og að skýringa væri þörf. Að grunur léki á að hún væri að smygla sprengju um borð og að áhöfnin gæti enga áhættu tekið.
“Ég áttaði mig strax á því hvað var í gangi. Vibratorinn minn var í ferðatöskunni minni og hafði farið í gang.”
Og hryllileg uppákoman hélt áfram að vinda upp á sig; farþegum var umsvifalaust vísað til baka niður landganginn – öllum var tilkynnt að flugi hefði verið frestað um óákveðinn tíma vegna öryggisráðstafana. Á meðan var farangur Amöndu tekinn fram til skoðunar frammi fyrir öllum og það var á þvi augnabliki sem hún dró, þvinguð á svip, titrandi vibratorinn upp úr töskunni.
“Allir farþegarnir horfðu á mig meðan ég tók titrandi vibratorinn upp úr töskunni og plokkaði batteríin úr.”
Skaðlaus vibratorinn var aftengdur á staðnum
Eftir stuttlega skoðun þar sem gengið var úr skugga um að vibrator Amöndu gæti ekki valdið farþegum neinum skaða, var úrskurður kveðinn upp – Amanda fengi að fljúga með öðrum farþegum óáreitt til Króatíu – en fluginu seinkaði hins vegar um talsverðan tíma og þurfti Amanda því tilneydd að setjast upp í sneisafulla flugvél af farþegum sem höfðu orðið vitni að því hvernig hún handfjatlaði vibratorinn á flugvellinum og fjarlægði rafhlöðurnar.
Reddaði málinu í snatri meðan allir farþegar störðu undrandi á
“Einhverjir tóku andköf þegar ég dró dildóinn upp úr töskunni en flestum fannst þetta bara fyndið. Sjálf var ég mjög niðurlægð en núna get ég hlegið að þessu. Ömurleikinn í þessu öllu saman var sá að öryggisvörðurinn sem skoðaði farangurinn minn var sjóðheitur foli en ég var ein á ferðalagi svo ég gat ekki talað um þetta við neinn. Ég stóð bara alein fyrir framan fjallmyndarlegan manninn og þurfti að redda mér í snatri.”
Aldrei með batteríisdrifin kynlífstæki um borð í flugvél aftur!
Amanda, sem segist geta hlegið að atvikinu núna, ráðleggur þeim ferðalöngum sem ætla að fara erlendis í sumarfríinu að taka batteríin úr öllum hjálpartækjum ástarlífsins áður en gengið er frá farangri í tösku. Hún er nú komin klakklaust til Króatíu en er staðráðin í að gera slíkt hið sama áður en heim til Svíþjóðar verður haldið innan skamms.
Í samtali við Expressen staðfesti fulltrúi SAS að umræddu flugi hefði seinkað en neitaði með öllu að gefa upp orsök tafarinnar.
Expressen greindi frá
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.