Stalst í heitu pottana í Keflavík um miðja nótt

Friðrik Friðriksson leikari útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1998 og hefur leikið fjölmörg hlutverk bæði á sviði og í sjónvarpi.

Friðrik er í Yfirheyrslunni í dag.

Fullt nafn:  Friðrik Friðriksson

Aldur: 41

Hjúskaparstaða: Trúlofaður

Atvinna: Leikari

Hver var fyrsta atvinna þín? Fyrsta vinnan mín var hjá bróður mínum í Myndbandavinnslunni.  Þar sat ég löngum stundum og horfði á gamlar fjölskyldumyndir frá ókunnugu fólki.

Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum? Ég var unglingur á 9. áratugnum og sá áratugur var eitt allsherjar tískuslys.

Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar?  Nei.  Öll mín leyndarmál munu koma út á prenti rétt áður en ég dey.

Hefurðu farið hundóánægður úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann? Já, einhverntíma vildi ég prófa að dekkja aðeins hárið.  Það endaði blágræn svart.  Ég gat ekkert sagt og vonaði bara að liturinn myndi dofna.

Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?  Já ég hef gert það.  Hef það samt ekki fyrir reglu.

Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í?  Það er svo vandræðalegt að ég get ekki sagt nokkrum manni frá því.  Ég mun segja frá því í leyndarmálabókinni. (sjá svar ofar)

Í hvernig klæðnaði líður þér best? Fallegum og snyrtilegum herrafatnaði sem passar mér fullkomlega.

Hefurðu komplexa?  Kannski smá komplex yfir því hvað ég er ókomplexeraður.

Vefsíðan sem þú skoðar oftast?  Facebook

Seinasta sms sem þú fékkst?  🙂  (broskall frá Ævari Þór Benediktssyni leikara, sátum saman á danssýningu)

Hundur eða köttur?  Hvorugt.  Á tvö börn það er nóg.

Ertu ástfanginn?  Já mjög og hef verið það frá því ég kynntist konunni minni.

Hefurðu brotið lög?  Stalst í heitu pottana í Keflavík um miðja nótt fyrir um 20 árum með hóp af stúlkum. Löggan náði okkur kviknöktum í pottinum og stakk okkur í löggubílinn en sleppti okkur eftir að við höfðum sungið nokkra umganga af Lög og Reglu með Bubba Morthens.

Hefurðu grátið í brúðkaupi?  Ekki hágrátið vandræðalega en augun hafa vöknað.

Hefurðu stolið einhverju?  Ég er alltaf að stela einhverju smávægilegu. Það er alltaf smá kikk. Síðast stal ég yfirstrikunarpenna af vinnufélaga og ætla ekki að skila honum.

Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það?  Ég vildi að ég hefði sleppt því að fara í brennóbolta með bekkjarfélögunum úr leiklistarskólanum á fyrsta árinu mínu.  Hefði ég sleppt því þá væri ég að öllum líkindum með heilt hægra hné í dag.

Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Sáttan og heilbrigðan, að njóta alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða með konunni minni og börnum og vonandi barnabörnum.

SHARE