Starbucks sítrónukaka

Þessi æðislega sítrónukaka kemur úr smiðju Gotterí.is. 

Þegar ég bjó í Seattle pantaði ég mér oftar en ekki sneið af Lemon pound cake á Starbucks ef það var ekki Birthday Cake Pop, Bacon Breakfast Sandwich eða Frappucchino :)Þar sem við erum nokkrar vinkonurnar á leið í húsmæðraorlof þangað í maí fór ég að hugsa um allt sem við þyrftum að gera og borða….já borða! Það er nefnilega æði margt sem ég sakna að geta ekki keypt mér dags daglega, líkt og þessi dásamlega sítrónukaka.

Ég googlaði þessa uppskrift og sá að það eru til æði margar Copycat síður sem bjóða upp á hinar ýmsu Starbucks uppskriftir og þetta líklega bara sú fyrsta sem ég ætla að prófa. Hér er hún að minnsta kosti fyrir ykkur að njóta!

Kakan

  • 3 egg
  • 190 gr sykur
  • 60 gr smjör (við stofuhita)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 tsk sítrónudropar
  • 3 msk sítrónusafi
  • 210 gr hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • ½ tsk salt
  • 100 ml matarolía (ljós)
  • Rifinn börkur af einni sítrónu
  1. Þeytið saman egg, sykur og smjör þar til létt og ljóst.
  2. Bætið þá vanillu- og sítrónudropum saman við ásamt sítrónusafa.
  3. Því næst fara þurrefnin saman við og blandað rólega saman þar til deigið verður slétt og fallegt.
  4. Að lokum er matarolíunni og sítrónuberkinum blandað saman við og hrært vel.
  5. Smyrjið formkökuform vel eða notið matarolíusprey og bakið í 170°C heitum ofni í 40-45 mínútur eða þar til prjónn kemur út með engri kökumylsnu.

Sítrónuglassúr

  • 250 gr flórsykur
  • 3-4 msk nýmjólk
  • 1 tsk sítónudropar

Blandið öllu saman í skál þar til slétt og hellið/smyrjið yfir kökuna.

SHARE