Sandra Diaz er varaforseti samtaka um framgang kvenna í Kanada. Ég rakst á pistil eftir hana sem mér fannst virkilega góður og lýsir vel því sem viðgengst í dag.
“Gengur stúlkum betur að vinna sér sess í samfélaginu ef þær eru hálfnaktar að reyna fyrir sér?” er spurning sem hún veltir upp.
Sandra skrifar:
“Þegar ég var 13 ára skrifaði ég hjá mér öll 28 atriðin sem þurfti að laga á líkama mínum svo að ég gæti orðið hamingjusöm og ánægð.
Ég geymdi listann undir dýnunni minni ásamt bunka af auglýsingum sem ég klippti út úr ýmsum glanstímaritum sem konur lesa, myndum af fullkomnum, kynþokkafullum módelum. Samkvæmt listanum mínum voru brjóstin ekki nægilega stór, rasskinnarnar ekki nægilega stinnar, lærin of feit og ökklarnir voru ömurlegir. Ó, ökklarnir!”
Hversu margar konur sem eru að lesa kannast við þetta? ég þori að veðja að þær eru í meirihluta.
Röng skilaboð
“Þegar ég var að alast upp á áttunda áratugnum voru auglýsingar af brjóstastórum ljóskum um allt. Þær áttu að selja bæði bjór og bíla. Ég keypti hvorki bjór né bíl en þegar ég horfði á stúlkurnar fannst mér ég ömurleg og óskaði heitt og innilega að ég væri einhver önnur en ég var. Mér lærðist bæði af kvikmyndum, sjónvarpinu og auglýsingum að það væri miklu vænlega fyrir stúlkur að vera fallegar en klárar í kollinum.
Sumir halda að þessi viðhorf séu horfin. Raunar halda sumir að konur hafi náð svo góðum tökum að það sé hægt að hætta öllu tali um kvenréttindi.”
Þessi viðhorf eru því miður ekki horfin og við þurfum ekki annað en að kveikja á sjónvarpinu og stilla á MTV til að sjá það.
Auglýsingar dynja á ungum stúlkum
“Af hverju dynja á ungri frænku minni auglýsingar og myndir hvarvetna sem gera bjór-blondínurnar eins sakleysislegar og Mínu mús? Úr því ég minnist á Mínu mús- af hverju er hún orðin svona mjó? Og hvernig urðu brjóstin á Önnu í Grænuhlíð (sem nú er orðin ljóshærð) svona stór? Ég vil ekki að frænka mín verði altekin af sömu ægilegu áhyggjunum og óánægju með sjálfa sig og ég barðist við þegar hún stækkar. Ég vil að hún sjái myndir af og sé með raunverulegum konum sem hafa raunveruleg áhrif en ekki svokallað vald sem kemur með einhverri ofursexímynd. ”
Eins og ég sagði hér fyrir ofan þurfum við ekki annað en að kveikja á MTV eða kíkja á netið og sjá nýjasta myndbandið með Beyonce eða Lady Gaga, mér finnst Beyonce rosalega flott en ég myndi ekki vilja að 6 ára frænka mín myndi taka upp á því að dansa eins og hún hefur gert á síðustu tónleikum.
Erfiðara fyrir ungar stelpur í dag en fyrir 20 árum
Sandra heldur áfram og segir:
“Að sumu leyti er þetta snúnara fyrir stelpur núna en var þegar ég var að alast upp. Listamenn eins og Lady Gaga og Beyoncé virðast í myndböndum sínum senda þau skilaboð að áhrifunum og valdinu nái stúlkur með því að sýna sig hálfnaktar með ofurstórar varir, skakandi sig til og glennandi sig.”
Útlit ræður öllu eru skilaboðin
“Stelpur eru að fá sömu skilaboð og ég fékk: útlit kvenna ræður öllu um frama þeirra og áhrif. Við förum að hugsa um að laga líkamann til ef hann er aðalverkfæri okkar á framabrautinni. Þannig verður það meira áríðandi að grenna ökklana en auka getuna til gagnrýninnar hugsunar.
Nýlega var gerð könnun á viðhorfum fólks í Kanada til auglýsinga um óraunverulegar kynímyndir sem beint er að unglingum. Um 90% aðspurðra töldu stöðuna til hinnar mestu ómyndar og vandræða. ”
En hvað með drengina?
“Ég á dreng á unglingsaldri og hugsa oft um þetta. Það er ekki spurning að það er verið að halda hugmyndum að drengjum líka um hvernig stúlkur eigi að líta út og þeir fara að hugsa að gildi konunnar liggi í útliti hennar.
Það er líka alveg ljóst að karlar og drengir eru líka kyngerðir í auglýsingum. En hefur það sömu áhrif og á stúkurnar? Í síðustu viku vorum við sonur minn að horfa á sjónvarpið og þá birtist auglýsing af David Beckham á nærbuxum. Það fór ekki fyrir brjóstið á syni mínum að hann er ekki með lærvöðva eins og Beckham. Hann hló bara og sagði- mamma af hverju er verið að sýna hann í sjónvarpinu SVONA? Veit hann ekki að hann er frábær í fótboltanaum?
Ég vildi óska að frænka mín geti brátt farið að hugsa á sama gagnrýna háttinn og sonur minn þegar hún er að horfa á auglýsingar eða myndir í sjónvarpinu. Næst þegar hún sér Beyoncé skaka sig til á hljómleikum vona ég að þú hugsi: Af hverju er verið að sýna hana SVONA í sjónvarpiu? Veit hún ekki hvað hún er flottur söngvari?”
Segir Sandra að lokum.