Sterkastur á Íslandi og notar skó númer 50

Júlían er sterkastur á Íslandi og ríkjandi heims- og Evrópumeistari í kraftlyftingum í unglingaflokki. Hann forðast það að verða steríótýpan af kraftlyftingamanni, lærir sagnfræði og starfar á listasafni.

„Ég hef verið stór og þungur alla tíð. Mamma er alltaf fljót að reiða fram sögur af mér sem sterku barni. Ég á til dæmis að hafa eyðilagt sjónvarpið á gamlárskvöld þegar ég var þriggja ára. Velt því um koll. Svo ég held að þessi íþrótt hafi bara legið vel fyrir mér alla tíð,“ segir kraftlyftingamaðurinn Júlían J. K. Jóhannsson.

Byrjaði að æfa 15 ára

Það fór sem sagt ekki á milli mála, strax á barnsaldri, að drengurinn væri kraftalega byggður. 13 ára var hann orðinn 180 sentimetrar á hæð og notaði skóstærð númer 50. Og nú, tíu árum síðar, er hann sterkasti maður á Íslandi og ríkjandi heims- og Evrópumeistari unglinga í kraftlyftingum í sínum þyngdarflokki, en hann hefur æft kraftlyftingar frá 15 ára aldri.

„Kannski átti ég að verða stærri, miðað við þessa skóstærð allavega,“ segir Júlían glettinn, en í dag er hann 183 sentimetrar á hæð. „Á tímabili var ég eins og L í laginu. En ég held að þetta vaxtarlag henti fullkomlega í það sem ég er að gera.“

Stefnir á Evrópumet fullorðinna

Margir hvá kannski þegar þeir heyra að Júlían sé að keppa í unglingaflokki, en menn eru unglingar aðeins lengur í kraftlyftingum en í öðrum íþróttum.

„Ég er á síðasta árinu mínu í unglingaflokknum. Flokkurinn er svolítið langur, hann er alveg upp í 23 ára. Ég held ég hafi verið 19 ára þegar það kom mynd af mér í Fréttablaðinu í tengslum við eitthvert mót og þá heyrði ég einn segja: „Unglingur? Hann er fimmtugur þessi gaur,““ segir Júlían og hlær. „Þá var ég vel skeggjaður,“ bætir hann við, en hann er vanur því að vera talinn eldri en hann er.

Hann lítur á þetta síðasta ár sitt í unglingaflokknum sem uppskeruár og ætlar að ljúka tímabilinu sem unglingur með því að keppa á HM í opnum flokki fullorðinna í nóvember, eftir að hafa tekið þátt í HM unglinga í lok ágúst. Láta þetta skarast aðeins. „Það er draumurinn að komast í topp tíu eða fimmtán í opnum flokki núna í lok ársins. Miðað við hvernig þetta ár hefur gengið þá tel ég það alveg raunhæft. Mig langar að ná ákveðnum toppi áður en ég hætti sem unglingur. Stefnan er að gera atlögu að Evrópumeti,“ segir Júlían hálf feimnislega, en hann er hógværðin uppmáluð þrátt fyrir mikla velgengni.

Gekk brösuglega í byrjun

Júlían byrjaði reyndar sinn íþróttaferil í körfubolta en eitt leiddi af öðru sem varð til þess að hann prófaði kraftlyftingar og fann sig strax á þeim vettvangi. „Á þeim tíma var ég reyndar mjög hræddur við að hætta í körfunni. Ég hafði heyrt að ef unglingar hættu á þessum aldri þá byrjuðu þeir ekki aftur. Þess vegna þráaðist ég við að hætta. Ég var kominn á þann stað að ég borðaði extra mikið fyrir körfuboltaæfingar því ég vildi ekki léttast. En svo lét ég slag standa, hætti í körfunni og sé ekki eftir því. Þetta er það besta sem ég hef gert.“

Júlían keppti svo á sínu fyrsta móti í kraftlyftingum þegar hann nýorðinn 16 ára, en það gekk brösuglega hjá honum á fyrstu tveimur mótunum. „En svo helgaði ég mig þessu alveg og í lok ársins gekk miklu betur og þá var ekki aftur snúið. Ég er líka þannig gerður að ég á erfitt með að gefast upp eða hætta. Það hjálpar mér mikið í lyftingunum.“

Lítri af skyri á dag

Júlían æfir fimm til sex klukkutíma á dag, fjórum til fimm sinnum í viku og hann þarf að borða ansi mikið til að viðhalda þyngd sinni og kröftum. Það er löngu orðið eðlilegt fyrir hann að gleypa í sig átta egg og hálfan lítra af skyri í einum rykk, eitthvað sem myndi eflaust valda meðalmanneskju magaónotum. „Ég borða á tveggja til þriggja tíma fresti yfir daginn án þess að hugsa mikið út í það, en þegar ég borða með öðru fólki þá verður það hissa og ég verð meðvitaðri um hvað ég borða mikið. Ég borða til dæmis lítra af skyri á hverjum degi og hef gert í sjö ár. Ég er samt alls ekki alltaf svangur á tveggja tíma fresti og það getur alveg verið erfitt að borða hálfan lítra af skyri og banana þegar maður er enn saddur,“ segir hann kíminn.

Tvinnar saman sagnfræði og lyftingar

En Júlían gerir fleira en að lyfta. Hann er búinn með tvö ár í sagnfræði við Háskóla Íslands og starfar á Listasafni Einars Jónssonar og kann vel við sig á báðum stöðum. „Sagnfræðin og lyftingarnar fara mjög vel saman, þó vissulega sé þetta mjög ólíkt. Þrátt fyrir að ég sé nánast alltaf að hugsa um kraftlyftingar þá verð ég stundum að hugsa um eitthvað annað. Og þá er gott að sökkva sér ofan í bækurnar. Það er ekkert betra en að lesa þegar maður er að hvíla. Svo næ ég að tvinna starfið á listasafninu saman við þetta. Fólk lyftir oft brúnum þegar ég segi hvað ég geri, en það skiptir mestu máli að hafa gaman af því sem maður er að gera.“

Síðasta haust gat hann svo tæknilega séð nýtt sagnfræðina til að öðlast meiri reynslu í lyftingunum. „Ég fór í skiptinám til Tékklands, eiginlega gagngert til að geta æft með einum þeim besta sem býr þar. Það munar svo miklu að æfa þannig. Hann er sterkari en ég og þá fer ég að elta. Ég er óvanur því. Stundum mætti ég á æfingu og fannst ég hálf aumur við hliðina á honum. En ég fann mikla bætingu.“

Starfaði við umönnun á elliheimili

Júlían er meðvitaður um að hann fellur ekki alveg undir steríótýpuímyndina af kraftlyftingamanninum. Hann hefur vissulega tekið að sér dyravörsluverkefni hér og þar en hann gerir gjarnan í því að vera öðruvísi. Forðast það að verða steríótýpa. „Síðasta sumar vann ég til dæmis við umönnun á elliheimili, sem var mjög þroskandi reynsla. En það var svolítið úr karakter hvað varðar þessa ímynd. Fólk var mjög hissa á því. Heimilisfólkið tók mér flest vel, en því brá kannski svolítið í fyrstu þegar ég mætti þarna, 160 kíló, að færa þeim mjólkurkex,“ segir hann og skellir upp úr.

Kynnist fólki úr öllum stéttum

Júlían er alls enginn einfari þó hann stundi einstaklingsíþrótt og sökkvi sér gjarnan ofan í bækur. „Maður er alltaf að æfa með einhverjum. Og í æfingastöðinni mætast ólíkar týpur; lögfræðingar, sagnfræðingar, iðnaðarmenn og allt þar á milli. Maður er því fljótur að eignast vini í hinum ýmsu stéttum,“ segir Júlían sem bendir á að áhuginn á kraftlyftingum á Íslandi hafi aukist mikið á síðustu árum. „Það er mikil aukning í félagsstarfi í kringum landið. Ég held að það séu komin 18 félög um allt land, frá Höfn í Hornafirði til Bolungarvíkur, og 7 á höfuðborgarsvæðinu. Nýliðastarfsemin er orðin mjög öflug en henni var kannski ábótavant lengi vel. Það er stór munur á íþróttinni og Kraftlyfingasambandinu í dag og þegar ég byrjaði fyrir sjö árum.“

Frábært að lyfjaprófa oft

Aðspurður hvort hann fái einhvern tíma að heyra að hann hljóti að vera að nota stera af því hann er svo sterkur, segist Júlían eiginlega alveg hættur að fá slíkar athugasemdir. „Þegar ég var að byrja þá heyrði ég þetta svolítið. Og kannski áður en kraftlyftingahreyfingin varð jafn sterkt samband innan ÍSÍ. En mér finnst þessi ímynd vera að hverfa. Á mínu fjórða kraftlyfingamóti, þegar ég var 17 ára, var ég lyfjaprófaður í fyrsta skipti og hef verið prófaður mörgum sinnum á ári síðan. Miðað við iðkendafjölda held ég að það séu fáar íþróttagreinar á Íslandi lyfjaprófaðar jafn mikið og kraftlyftingar. Sem er bara frábært.“

Júlían telur ímyndina hafa breyst mikið eftir að kraftlyftingarnar fóru að færast meira inn í íþróttafélögin. „Þú ferð inn í íþróttafélag til að æfa íþróttir, en notkunin er kannski meiri í þessum einkareknu stöðvum.“

Mynd/Hari

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans. 

SHARE