Stolinn bíll en samt ekki stolinn – Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Það geta nú stundum átt sér stað skondin atvik sem Lögreglan þarf að sinna eins og þessu Facebook færsla frá þeim segir til um:

Um miðjan síðasta mánuð barst lögreglu tilkynning um að bifreið hafi verið stolið þar sem hún stóð fyrir utan matsölustað, en eigandinn hafði brugðið sér inn til að ná sér í mat í gogginn en skilið bíllyklana eftir í bifreiðinni. Eðli málsins samkvæmt var öllu til tjaldað, bifreiðin eftirlýst og skýrsla tekin af eigandanum.
Skömmu síðar barst símtal, frá hinum, nú bíllausa, tilkynnanda þar sem hann tilkynnti lögreglu að um stærðar misskilning væri að ræða. Þannig var að annar maður hafði komið að matsölustaðnum í sömu erindagjörðum, nema sá ók lánsbifreið í eigu sonar síns. Sá sem ók lánsbifreiðinni hafði þá hlaupið inn á matsölustaðinn og náð sér í snæðing en þegar hann kom út aftur, hoppaði hann inn í það sem hann taldi vera bifreiðina sem hann væri með í láni, en var í raun allt önnur bifreið.
Allt leystist þetta þannig af sjálfu sér enda ljóst að um stóran misskilning var að ræða. Ekki fer sögum af viðbrögðum þegar faðirinn kom heim á kolröngum bíl en væntanlega hefur orðið uppi fótur og fit.
Nú fer að koma vor og helgarstemming í landann og því óskum við öllum góðrar helgar.

 

 

SHARE