Stolt móðir

Rétt í þessu fylltist ég stolti yfir því hvað hún dóttir mín er flottur einstaklingur.

Ég hrósaði henni fyrir vel unnið verk og benti henni á að hún byggi yfir einstökum hæfileikum. Hvatti hana til að halda fast í þessa eiginleika sína.

Hún þakkaði fyrir hrósið og sýndi af sér auðmýkt þar sem hún eignaði skemmtilegri vinnu og góðum vinnufélögum hlutdeild í hrósinu. Það gerði mig enn stoltari af henni að hún skuli vera svo flottur fagmaður.  Ég naut þess að finna fyrir þessari tilfinningu, stoltinu og öllum þeim kærleika sem henni fylgir.

Mitt í þessu öllu fann ég til sjálfs míns, ég var einn af hennar helstu mótunaraðilum. Ég hafði gert vel og fann til stolts yfir því að hafa náð að skila þessu til barnsins míns.

Eitt andartak hvarflaði hugurinn til þess tíma þegar ég var lítil stúlka og kenningar voru uppi um það, að ekki ætti að hrósa börnum of mikið því þá yrðu þau hrokafull og montin og á þeim tíma þótti algerlega út í hött að vera ánægður með sig eða stæra sig af góðum verkum.

Þessar gömlu kenningar hafa allar verið afsannaðar og mikilvægi þess að nota hrós rétt við uppeldi er löngu sannað og kennt á uppeldisnámskeiðum.

Það er líka vitað í dag að partur af heilbrigðri sjálfsmynd er að sjá eigið ágæti sem og að sjá hvar maður getur bætt sig.

Hrósum börnunum okkar fyrir vel unnin verk, sama hvað þau eru gömul (mín er 23 ára).

Bendum börnunum okkar á þá hæfileika sem við sjáum hjá þeim og sínum þeim að við kunnum að meta eigin hæfileika.

Með því að leita eftir styrkleikum frekar en veikleikum þá erum við að eiga uppbyggileg samskipti og þar með að leggja okkar af mörkum til þess að efla sjálfsmynd þess einstaklings sem við eigum samskipti við.

Verum óhrædd við að skína skært.

Kristín Snorradóttir

Heimasíða Sterk saman og Facebook.

 

SHARE