Bandaríski stórleikarinn Robin Williams er látinn, 63 ára að aldri. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi leikarans, en grunur leikur á að leikarinn hafi svipt sig lífi á heimili sínu sem hann deildi með eiginkonu sinni í Kaliforníu.
Í síðustu færslu leikarans á Instagram, óskaði hann dóttur sinni til innilegrar hamingju með afmælisdaginn en færslan var sett inn í gærkvöldi. Hér má sjá síðustu færslu leikarans á Instagram:
Robin Williams átti farsælan feril að baki sem leikari, en hann var einna þekktastur fyrir hlutverk sín í grínmyndum á borð við Mrs. Doubtfire og Jumani. Hann hreppti Óskarinn fyrir besta leikara í aukahlutverki sem Dr. Sean Maguire í stórmyndinni Good Will Hunting, en frægðarstjarna hans reis síðla á sjöunda áratugnum þegar hann tók að sér hlutverk í sjónvarpsþáttunum Mork & Mindy.
Í opinberri yfirlýsingu frá Susan Schneider, sem er eftirlifandi eiginkona leikarans, kemur þetta fram:
Í dag missti ég eiginmann minn og minn besta vin, en veröldin glataði á sömu stundu einum hæfileikaríkasta listamanni og fegurstu manneskju á lífi. Ég er gersamlega niðurbrotin og fer fram á nærgætni fyrir hönd fjölskyldu okkar, en við æskjum þess eins að fá næði til að syrgja í friði og ró. Það er einnig ósk okkar að heimsbyggðin muni minnast þeirrar gleði og taumlausa hláturs sem hann færði heimsbyggðinni en ekki atvikaröð þeirri sem leiddi til dauða hans.
Hér má sjá Robin Williams fara á kostum í stórmyndinni Good Morning Vietnam:
[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”Erf2iFHG44M”]
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.