Í kjölfar greinar sem við birtum í dag við seinni frásögnina frá því í þætti þeirra Mána og Frosta, Harmageddon, í morgun.
Þegar ég var 21 árs fékk ég óvænt boð. Ég fékk skilaboð frá 3ja aðila um að XXXX “miðill” hafi séð mig í K.A. Heimilinu og hafi í kjölfarið fengið svo sterk skilaboð sem hann yrði að koma til mín. Mér bauðst sem sagt að fá fund með honum án endugjalds á skrifstofu XXXXXX. XXXX var á þessum tíma búsettur fyrir sunnan og nafntogaður fyrir “miðilsgáfu” sína. Ég var uppi með mér og þáði boðið, enda spenntur að heyra hvaða tíðindi andarnir hefðu handa mér og mætti því fullur eftirvæntingar.
Næsta klukkutíma væri ekki óvarlega lýst sem furðulegum. Hann byrjaði á að lýsa fyrir mér gömlum manni sem væri að vinna við girðingu, greinilega út í sveit. Hann spurði mig hvort afi minn væri látinn. Ég hvað svo ekki vera. Þá spurði hann mig hvort lang-afi minn væri látinn. Ég sagði svo vera. Hann spurði hvort hann hafi verið bóndi. Ég hvað svo ekki vera. Þá sagði hann að þetta væri sennilega einhver sem afi eða amma könnuðust við og bað mig um að spyrja þau nánar út í þetta.
Næst sagði hann mér frá indjánahöfðingja sem fylgdi mér (á þessum tíma var víst í tísku að það væri annað hvort indjánahöfðingi eða munkur) og sá gæfi mér kraft, en hann vantaði betri tengingu, sem XXXX sagðist vera reiðubúinn að redda. Hann bað mig um að klæða mig úr að ofan og hann kom sér svo fyrir aftan við mig og strauk mér um bakið, og lýsti fyrir mér að þannig kæmi indjánahöfðinginn orkunni til mín. Þetta gerði hann í nokkrar mínútur á meðan hann spurði mig hvort ég hafi orðið fyrir einhverjum meiðslum á læri. Ég hvað svo ekki vera. Þá spurði hann mig hvort hnéin hafi eitthvað verið að plaga mig og ég sagði að ég hafi farið í liðþófaaðgerð nýlega. Þetta þótti honum mikil tíðindi enda væri hann að fá skilaboð frá indjánanum um að hann yrði að koma orku í hnéin á mér. Hann bað mig um að bretta skálmarnar upp eins langt og þær kæmust, svo tók hann sér stöðu fyrir framan mig og strauk mér um hnéin. Þetta var greinilega erfitt fyrir hann því svitinn lak af honum. Hann einbeitti sér að hnjánum í nokkrar mínútur en sagði svo að hann væri að fá sterk skilaboð um að lærin á mér væru viðkvæm og að indjáninn vildi endilega senda smá fyrirbyggjandi orku þangað. Ég sagði að lærin á mér væri í fínu standi og að engin þörf væri á frekari orku þangað. Þá fékk hann sér sæti aftur og skrifaði eitthvað niður á blað, sem hann síðan rétti mér og sagði mér að þetta væri heimasímanúmerið hans í Reykjavík og að ég ætti endilega að bjalla í hann þegar ég kæmi suður. Ég yrði hinsvegar að lofa að segja engum frá því að hann hafi látið mig fá þetta númer. Ég lofaði því, og sveik. Hann spurði hvort hann ætti að gefa mér aðeins meiri orku áður en tíminn væri liðinn en ég sagðist vera á hraðferð.
Það var ekki fyrr en á leiðinni heim sem “þokan” hvarf og ég áttaði mig á því sem hafði í raun gerst þarna inni.
Daginn eftir leitaði ég kollega hans uppi, sagði henni hvað hafði gerst og spurði hana hvort það væri venjan að strjúka þeim sem miðlað væri með. Svarið hennar var eftirfarandi: “Þetta er sorgarsaga með hann. Hann er með rosa hæfileika en virðist ítrekað sækja í að misnota þá á þennan hátt”.
Ég hef aldrei farið leynt með þessa reynslusögu þar sem ég hef litið á þetta sem víti til varnar. Í gegnum tíðina hef ég óhugnalega oft talað við menn sem höfðu svipaða sögu að segja og ég vona að þeir hafi í raun sloppið jafn vel og ég.
Þeim kollegum hans, sem vissu af þessum veikleika en töluðu ekki um, vorkenni ég.
Þeim sem hafa lent í svipuðu en finnst þeir hafi “sloppið svo vel” hvet ég til að tala, því það gæti orðið einhverjum öðrum mikils virði.