Leikkonan, handritahöfundurinn og uppistandarinn Amy Schumer gerist einlæg í nýrri bók, The girl with the lower back tattoo, eða Stúlkan með mjóbakshúðflúrið. Í bókinni deilir Amy með lesendum mistökum sínum, sársauka og gleði. Hún vill alls ekki meina að um sjálfsævisögu sé að ræða. „Ég er bara nýorðin 35 ára svo ég á langt í að vera sjálfsævisöguhæf,“ segir leikkonan.
Og titillinn; Schumer fékk sér húðflúr þegar hún var tvítug, ekki svo lítið „tribal-trampstamp“ á mjóbakið sem hún neitar að skammast sín fyrir eða sjá eftir. „Í hvert einasta skipti sem ég afklæði mig fyrir framan karlmann og hann sér það þá veit hann líka í hjarta sínu að ég er rusl og ég tek mjög slæmar ákvarðanir. En ég lofa ykkur frá innstu hjartarótum að mér er nákvæmlega sama. Ég ber mistök mín eins og heiðursorðu og ég hampa þeim. Þau gera mig mennska.“ Schumer segir þennan boðskap raunar vera tilgang bókarinnar, að fólk taki sig í sátt fyrir það sem það er og hætti að eyða tíma í að skammast sín fyrir mistök sín. Bókin hefur vakið mikla lukku, ekki síst kaflinn þar sem hún birtir kafla úr gömlum dagbókum frá unglingsárum. Bókin er fáanleg á Amazon.