Stuttmyndin RIMLAR: Manneskjur og misjöfn viðbrögð við sorgarferli

Um þessar mundir fer fram fjáröflun fyrir Stuttmyndina Rimla. Handrit og leikstjórn er í höndum Natans Jónssonar sem er útskrifaður úr Kvikmyndaskóla Íslands. Síðan þá hefur hann skrifað og leikstýrt tveimur stuttmyndum og er einn stofnmeðlimur í Leikfélaginu Hamfarir, en stefnt er á að setja upp fyrsta leikrit félagsins á næsta ári.

Hvað gerist í lífi ungs fólks sem á von á sínu fyrsta barni en snýr tómhent heim af fæðingardeildinni?

Myndin skartar þeim Þórunni Guðlaugsdóttur og Aðalsteini Oddssyni og fjallar um ungt par, þau Daníel og Árný, sem eru við það að eignast sitt fyrsta barn. Því miður fer ekki eins og skildi og þau snúa aftur heim á barnsins. Þau bregðast við missinum á mismunandi vegu. Það fer að halla undan fæti í sambandinu og eiga þau erfitt með að tjá sig við hvort annað. Að lokum þurfa þau að horfast í augu við sannleikann og taka ákvörðun um það hvort sambandið nái að standa þetta af sér.

Stuttmynd sem snýst um manneskjur sem ganga á mismunandi vegu gegnum sorgarferli

Handritið skrifaði Natan síðastliðið haust og fóru tökur fram rétt fyrir jólin 2013. Sagan snýst fyrst og fremst um manneskjur og hvernig þær ganga á mismunandi vegu í gegnum sorgarferlið. Hvernig þau missa oft sjónar á því sem þau eiga þegar ekkert situr eftir nema eftirsjá.

Frambærilegir og ungir leikarar fara með bæði aðalhlutverk

Með aðalhlutverk fara þau Þórunn Guðlaugsdóttir og Aðalsteinn Oddsson, en þau eru bæði útskrifuð af leiklistarbraut Kvikmyndaskóla Íslands.

Frá útskrift hefur Þórunn birst í hinum ýmsum leikritum, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum síðastliðin ár. Eftir samstarfið í Rimlum ákváðu hún og Natan að stofna Leikfélagið Hamfarir saman og eru um þessar mundir að vinna í sínu fyrsta leikriti sem verður sett á laggirnar á næsta ári. Í millitíðinni gerðu þau forvarnarverkefni gegn einelti í formi stuttmyndar síðastliðið vor með grunnskólabörnunum á Hvammstanga ásamt Halldóru Guðjónsdóttur leikkonu og framleiðanda.

Aðalsteinn er búinn að leika í mörgum stuttmyndum eftir að hann útskrifaðist úr kvikmyndaskólanum og er um þessar mundir að læra mannfræði í Háskóla Íslands sem hann stefnir á að klára næsta vor.

Í aukahlutverkum eru reyndir leikarar sem hafa komið víða við á undanförnum árum

Með aukahlutverk fara þau Vanessa Andrea Terrazas, Halldóra Guðjónsdóttir og Elva Ósk Ólafsdóttir, en Elva hefur komið víða við í kvikmyndabransanum á Íslandi og hefur t.d. komið fram í kvikmyndunum Hafið og Köld slóð. Síðastliðinn vetur lék hún í Hamlet sem var sett á svið í Borgarleikhúsinu.

Tengill á Facebook síðu RIMLA má finna HÉR en til að veita verkefninu lið á Karolina Fund: Smellið HÉR

Hér fer kynningarstikla RIMLA:

 

SHARE