Þessi æðislega kaka er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar. Það má nú alveg gæða sér á einni svona um helgina, í næsta saumaklúbb eða afmælisboði.
Sjá einnig: Æðisleg marengsterta með Rolo og Nóa kroppi
Súkkulaðimarengs með berjafrómas
2 eggjahvítur
120 g sykur
1/2 tsk lyftiduft
Stífþeytið eggjahvítur og bætið sykri og lyftidufti saman við. Þeytið áfram þar til marengsinn verður alveg stífur. Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappírsörk ofan í botn formsins. Smyrjið marengsinum jafnt ofan í smelluformið og bakið við 120° í 50 mínútur. Slökkvið þá á ofninum og látið marengsbotninn kólna inni í honum til að koma í veg fyrir sprungur.
Súkkulaðibotn
200 g suðusúkkulaði
115 g smjör
150 g sykur
1/4 tsk salt
1 1/2 tsk skyndikaffiduft
2 tsk vanilludropar
3 egg
40 g kakó
Bræðið suðusúkkulaði og smjör saman við vægan hita og hellið í hrærivélarskál. Blandið saman við súkkulaðiblönduna sykri, salti, skyndikaffidufti og vanilludropum. Bætið einu eggi í einu við deigið og hrærið þar til það verður silkimjúkt. Sigtið kakóduft út í deigið og hrærið áfram þar til kakóið hefur blandast saman við. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og smyrjið formið. Hellið deiginu í smelluformið og bakið við 190° í 20-25 mínútur.
Kælið kökubotninn í forminu í um 5 mínútur, leysið hann úr og látið kólna alveg.
Berjafrómas
1 pakki jarðarberja Jello
50 ml sjóðandi heitt vatn
400 g frosin hindber
2-3 msk sykur
3 matarlímsblöð
600 ml þeyttur rjómi
Leysið upp jarðarberja Jello í heitu vatni og kælið þar til það verður rétt volgt. Afþíðið 200 g af frosnum hindberjum og sjóðið saman við sykur í um 4 mínútur. Sigtið hindberjapúrruna þannig að fræin skiljist frá. Leggið matarlímsblöð í bleyti í köldu vatni þar til þau mýkjast og kreistið af þeim vatnið. Hrærið blöðunum síðan saman við heita hindberjapúrruna og kælið hana að stofuhita.
Hrærið jarðarberja Jello og hindberjapúrru varlega saman við þeyttan rjóma. Blandið að lokum 200 g af frosnum hindberjum saman við berjafrómasinn og kælið í 20-30 mínútur.
Setjið súkkulaðibotn á fallegan kökudisk og smyrjið berjafrómas jafnt yfir botninn. Leggið marengsbotn yfir tertuna og kælið á meðan fílakaramellubráðin er útbúin.
Fílakaramellubráð
20 fílakaramellur
20 ml rjómi
Bræðið fílakaramellur saman við rjóma og kælið við stofuhita.
Hellið að lokum fílakaramellubráð fallega yfir marengsbotninn og berið tertuna fram.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.