Einn besti tími ársins er runninn upp. Berin eru komin! Það er fátt sem jafnast á við berjamó en ef ég fer í berjamó finnst mér það vera eins og besta hugleiðsla. Ég tíni oft meira en ég get notað af berjum og þá er gott að geta fundið fjölbreyttar leiðir til að nota berin, já og svo er auðvelt að frysta þau bara og nota í þeytinginn.
Hér er ein æðisleg uppskrift frá Eldhússystrum sem lítur alveg afskaplega vel út og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.
Rúlluterta með berjum og rjóma
Rúllutertan
3 egg
120 gr sykur
120 gr hveiti
1 tsk lyftiduft
Fylling
100 gr fersk hindber
100 gr fersk bláber
2 msk sykur
5 dl rjómi (ég notaði minna, ca. 3,5 dl – smekksatriði).
Setjið ofninn á 225 c.
Þeytið egg og sykur þar til ljóst og létt. Blandið saman hveiti og lyftidufti og siktið yfir eggjablönduna og blandið varlega saman við með sleikju.
Bökunarpappír lagður í ofnskúffu (ca. 30×40 cm). Penslið með smá bræddu smjöri. Ég hafði pappírinn aðeins stærri til að geta brotið upp á kantana en þess þarf ekki endilega. Hellið deiginu ofan á pappírinn. Bakið í 5 – 7 mínútur og fylgist vel með, hún brennur hratt og þá er ekki hægt að rúlla henni upp svo vel sé. Takið tertuna út og fjarlagið af ofnskúffuni, hvolfið tertunni á annan bökunarpappír sem er búið að strá smá sykri yfir. Fjarlægið pappírinn sem tertan var bökuð á, ef hann er fastur við er gott að pensla pappírinn með köldu vatni.
Hellið helmingnum af berjunum í skál og stráið sykrinum yfir þau og látið liggja í smá stund. Þeytið rjómann (ég set smá sykur út í 1 – 2 msk af sykri út í en það er smekksatriði). Breiðið 1/3 af rjómanum yfir kökuna og svo berjablönduna með sykrinum yfir. Rúllið tertunni upp (og munið að snúa samskeitunum niður.) Setjið afganginn af rjómanum yfir tertuna og stráið berjunum yfir.
Uppskrift fengin úr tímaritinu Hembakat.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.