Nyrst á Svalbarða fagna menn og konur komu miðnætursólarinnar með miklum ákafa, berrössuðum tilburðum og afar frjálslegu sjósundi sem felur í sér þá ljúfu list að kasta af sér öllum klæðum, hlaupa óhindrað út í ískaldan sjóinn og sprikla. Af öllum lífs og sálarkröftum. Á Evu- og Adamsklæðum, hlæjandi, öskrandi og skjálfandi af kulda.
Ólíkt því sem Íslendingar gera, er “upprisa miðnætursólarinnar” haldin hátíðleg þann 1 maí hvert ár á litlu eyjunni Bjørnøya, en á eyjunni er að finna nektarklúbb sem hefur það eitt að markmiði að baðast án fata. Meðlimir eru 3500 talsins og meðal þeirra má finna veðurfræðingana sem starfa þar bróðurpart ársins við veðurathuganir og mælingar á jarðhræringum.
Sex af níu veðurfræðingum, sem hafa dvalið vetrarlangt á Svalbarða í ár, rifu af sér öll klæðin nú í ár og hlupu berrassaðir í sjóinn, guðs lifandi fegnir því að brátt er útlegðin á enda og allir geta snúið til síns heima.
Engin myndbönd er að finna frá atburðinum í ár sem NRK fjallar um, en hér má sá hryllilega fyndna umfjöllun frá árinu 2007 um berrössuðu veðurfræðingana sem búa á Svalbarða meginþorra ársins og strípalingast í Norður-Atlandshafinu hvert ár þegar miðnætursólin loks rís á himni.
Það hlýtur að vera frábært að búa á hjara veraldar!
[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”9x_5y110YjQ”]
Forsíðumynd – allur réttur áskilinn: BJARNE RINGSTAD OLSEN
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.