Svava Johansen eigandi og forstjóri NTC er ein mesta tískudíva landsins og þótt víðar væri leitað. Hún hefur staðið í eigin rekstri síðan á unglingsárum og þekkir tískuheiminn því inn og út. Svava er þekkt fyrir mikinn metnað og auðvitað góðan smekk. Við fengum hjá henni góð tísku-ráð fyrir konur á besta aldri.
Gilda einhverjar reglur um klæðaburð kvenna á besta aldri? Er eitthvað bannað eða eitthvað sem er mælt sérstaklega með? Mér finnst alltaf fallegast að klæðast einhverju töff í bland við klassískt, það býr til svo flott tvist. Það er auðvelt að fara yfir strikið svo gott er að fá ráðgjöf í verslunum. Hver og ein kona finnur hvaða verslun eða stíll hentar. Persónulega finnst mér of stutt pils og engar sokkabuxur ekki ganga fyrir konur sem komnar eru yfir vissan aldur þótt klárlega sé það einstaklingbundið. Almennt er fallegara að hafa pilsin síðari þegar maður eldist.
Er starfið þitt alltaf jafn spennandi eða hefurðu einhvern tímann hugsað um að snúa þér að öðru? Ég var að koma frá Mílanó og París, var á æðislegum sýningum og haustið 2015 lítur ótrúlega vel út! Mér finnst ég vera í svo skemmtilegu starfi og hef endalausan áhuga á öllu tengdu innkaupum á fallegum fatnaði og skóm, jafnt sem framsetningu á þeim og sölu. Í sölunni er maður í svo skemmtilegri nálægð við viðskiptavininn og fastir viðskiptavinir hafa oft orðið nokkuð góðir vinir með árunum. Ég hef alltaf áhuga á að sjá nýjungar og fylgjast með nýjum straumum, sjá hvort heimavinnan hafi verið unnin hjá hönnuðum hvort sem er í Kaupmannahöfn, London, París eða Mílanó. Þetta er svo gaman. Ég er líka mjög ánægð að sjá að íslenskar konur eru yfirleitt vel klæddar og vel skóaðar. Það er svo gaman að eldast og halda flottum fatastíl, það skapast einhver reisn yfir fólki sem er vel klætt og gefur því vellíðan sem skilar sér í jákvæðara fólki.
Hvað værir þú að gera ef þú værir ekki í tískubransanum? Ætli ég væri ekki í einhverju starfi tengdu tísku. Annars hef ég lúmskan áhuga á stjörnuspeki, þarf alltaf að vita í hvaða stjörnumerki allir eru í sem ég á viðskipti við, og bara áhuga á ýmiss konar speki um að þekkja lífið og fólkið í kringum mig. Hvað er hægt að gera til að lífsánægja endist sem lengst bæði hjá mér og öðrum? Ég hef alltaf þurft að vera í góðu jafnvægi til að geta framkvæmt og látið hluti gerast, er mjög meðvituð um það og finnst endalaust gaman að ræða þau mál.