Svefn barna – hversu mikill eða lítill?

Hvaða áhrif hefur lengd svefnsins?

Svefninn er öllum manneskjum mikilvægur. Svefninn veitir hvíld og endurnýjar orku, svo að ekki er að undra að okkur sé tíðrætt um hvernig við höfum sofið, hvort börnin okkar hafi sofið og hversu mikið.

Manneskjan vinnur úr þeim áreitum og áhrifum sem hún verður fyrir í lífinu svo að heilnæmur svefn skiptir sköpum um andlega líðan okkar.

Góður svefn næst jafnan með heilbrigðum svefnvenjum og það er hlutverk foreldranna að leiðbeina börnum sínum um slíkt.

Hvað þarf barnið mikinn svefn?

Svefn barnsins snertir alla fjölsyldum og hefur óhjákvæmilega áhrif á hvernig foreldrarnir sofa. Því er mikilvægt að stuðla að góðum svefni og hafa reglu á svefnvenjum.

Svefnþörfin er einstaklingsbundin. Ráðlagður svefntími er því ævinlega viðmiðun og ef barn er sérlega athafnasamt og hefur litla svefnþörf veldur það bara hamagangi og látum ef reynt er að þvinga það til að sofa meira en því er eðlilegt.

Hversu mikinn svefn þurfa kornabörn?

Kornabörn sofa jafnan 16 – 19 klukkustundir á sólarhring til að byrja með. Þau vakna oft á 2 – 3 tíma fresti til að nærast, lengsti samhangandi svefn þeirra er oftast 4 – 5 klukkustundir, en þau vakna þegar þau verða svöng. Þó kemur fyrir að kornabörn sofa tvöfalt lengur í einu. Það er í fínu lagi, ef barnið er heilbrigt og eðlilegt. Ef barnið er með sérstakar næringarþarfir, t.d. ef það þyngist of lítið eða hefur lést, á að vekja það á 2 – 3 tíma fresti eftir því hvað læknir eða hjúkrunarfræðingur ráðleggur.

Hversu mikinn svefn þarf 3ja mánaða barn?

Þriggja mánaða barn sefur yfirleitt 13 – 15 klukkustundir á sólarhring, 5 tíma á daginn og afganginn á nóttunni. Það getur þó vaknað 1 – 2 sinnum yfir nóttina.

Ef enn er nauðsynlegt að gefa brjóst eða skipta á barninu á næturnar þarf að gera það án þess að skemmta barninu.

Þegar barnið vaknar skaltu fyrst reyna að láta það halda áfram að sofa. Strjúktu því blíðlega um bakið, breiddu sængina yfir það, þannig að það finni fyrir návistinni, en það er alveg óhætt að láta 2 mínútur líða áður en meira er gert. Bregstu við á kyrrlátan, röskan hátt, án þess að kveikja ljósið, stilltu þig um að tala eða leika við barnið. Þannig lærir barnið að nóttin er ekkert sérstaklega skemmtilegur tími. Það er á daginn sem fólk talar saman og leikur sér.

Það er þitt hlutverk, sem foreldris, að kenna barninu það sem rétt er. Barnið sjálft gerir engan greinarmun á nóttu og degi, það ert þú sem ræður.

Hversu mikinn svefn þurfa 6-12 mánaða gömul börn?

Þegar barnið er orðið hálfs árs gamalt og fram að eins árs aldri sefur það yfirleitt 12 – 14 tíma á sólarhring.

Ef barnið vaknar ennþá á næturnar – og ef búið er að ganga úr skugga um að ekkert sé að er óhætt að láta 5 mínútur líða meðan reynt er að róa barnið. Strjúktu því rólega um bakið, segðu eitthvað róandi svo að barnið finni fyrir nærveru þinni. Á þessum aldri á barnið líka oft uppáhalds leikfangadýr eða teppi, sem það hefur hjá sér í rúminu. Barnið finnur til öryggis við að hafa sama kæra hlutinn hjá sér.

Hversu mikinn svefn þarf 1-3 ára barn?

Eins til þriggja ára barn sefur oftast 10-12 tíma á sólarhring. Fylgja ætti föstum venjum þegar barnið er búið í háttinn þá veit barnið að þegar undirbúningi er lokið á það að fara að sofa.

Hæfilegur undirbúningstími fyrir barnið og fjölskylduna er 15 til 30 mínútur. Þið getið leikið ykkur rólega í stundarfjórðung, lesið bók, hlustað á rólega tónlist og síðan er barnið tilbúið að fara að sofa með uppáhalds dýrið sitt eða teppið.

Hversu mikinn svefn þarf barn á forskólaaldri?

Forskólabarnið sefur yfirleitt 10-12 tíma á sólarhring.

Á þessum aldri eru svefnvenjur og háttatími fastmótuð.

Verið þó meðvituð um að á þessum aldri geta börn fengið martröð. Ef barnið grætur og vaknar af martröð hefur það þörf fyrir huggun og öryggi. Ef barnið vaknar skal fara inn til þess, strjúka því blíðlega um bakið og segja eitthvað róandi. Reyndu að vekja barnið ekki meira, né spyrja það um draumfarir sínar, því að það er oftast hálfsofandi og því auðvelt að róa það með nærveru þinni. Oftast muna börnin ekki eftir martröðinni daginn eftir.

Hversu mikinn svefn þarf skólabarnið?

Svefnþörf skólabarna er yfirleitt 10 klukkustundir á sólarhring.

Það er mikilvægt fyrir skólabarnið að svefntími þess miðist við skólatíma, svo að það sé vel útsofið og hresst í skólanum. Annars er hætt við að námið fari fyrir ofan garð og neðan og að morgnarnir fari í eilíft stríð við þreytt barn. Því er mikilvægt að foreldrarnir haldi vel um stjórntaumana, til að barnið þrífist sem skyldi.

Hvað eru háttatímavenjur?

Undirbúningurinn felst í því að gera það sama, í sömu röð, á sama tíma áður en farið er í háttinn.

Venjurnar gætu verið á þessa leið:

  • Leyfðu barninu að komast í ró með því að leika við það í rólegheitum
  • Leyfðu því að velja náttfötin, sem það ætlar að sofa í.
  • Hlustið saman á rólega tónlist.
  • Lestu eða segðu barninu stutta sögu.
  • Bjóddu barninu góða nótt þar sem það liggur með dýrið sitt eða teppið, eða hvað annað sem það hefur hjá sér í rúminu.

Hæfilegur undirbúningstími fyrir barnið og fjölskylduna er á bilinu 15-30 mínútur.

Er eðlilegt hvað barnið mitt sefur lítið?

Beittu fyrst heilbrigðri skynsemi og skoðaðu barnið. Ef barnið er úthvílt og í góðu jafnvægi og þroskast eðlilega sefur það líklega nóg. Ekki er úr vegi að athuga hversu mikið aðrir í fjölskyldunni sofa. Svefnþörf er yfirleitt ættgeng.

Ef þú ert í vafa, eða það finnast þarfir barnsins óeðlilegar, skaltu ræða við heimilislækninn eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð.

Á að láta börn gráta sig í svefn á nóttinni?

Nei. Grátandi barn hefur ævinlega þörf fyrir þig. Það þarf að finna fyrir öryggi. Strjúktu barninu blíðlega um bakið, segðu eitthvað róandi við það, breiddu sængina yfir það. Gerðu þetta aftur ef þörf krefur.

Ef barnið þitt grætur áttu líka að aðgæta hvort allt sé í lagi og að það sé örugglega ekki veikt eða með hita.

Þessi grein er frá Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE