Svefntruflanir á meðgöngu

Margar konur verða fyrir svefntruflunum á síðasta þriðjungi þungunarinnar. Vanfærar konur eiga oft erfitt með að sofna og að finna þægilega svefnstellingu. Þær fá illt í bakið eða truflandi draumar og martraðir raska svefnró þeirra. Eftir að hafa verið þreyttar og sofið meira en þær eiga vanda til í byrjun þungunarinnar snýst þetta oft við vegna margvíslegra líkamlegra breytinga sem verða á síðasta hluta meðgöngunnar.

Sjá einnig: Litningafrávik á meðgöngu

Ýmis atriði, bæði líkamleg og andleg, geta raskað svefnró vanfærra kvenna og má þar nefna:

  • sinadrátt í fótleggi/fætur
  • mæði eða þungan hjartslátt
  • tíðar ferðir á salernið vegna þrýstings á þvagblöðruna
  • erfiðleikar með svefn vegna óláta í kraftmiklu fóstri og sparka í viðkvæma staði
  • vandræði með hreyfingar í rúminu vegna fyrirferðar þinnar
  • Þú getur haft bakverk
  • meiri draumfarir en venjulega
  • fleiri minnisstæðar martraðir en venjulega
  • kvíði sem tengist fæðingunni
  • áhyggjur af barninu og hvort það muni verða eðlilegt.

Allt er þetta hluti af meðgöngunni. Það líður að sjálfsögðu hjá eftir fæðinguna en hægt er að stuðla að meiri næturró með ýmsu móti.

Sjá einnig: Móðir greind með brjóstakrabbamein á meðgöngu

Hvað er til ráða?

Ef þú færð sinadrætti í fótleggina geturðu spyrnt fast í rúmgaflinn. Ef rúmið er ekki með gafl þarftu að fara á fætur og stíga fast í þann fótinn sem krampinn er í. Sinadrættir geta versnað út af kalkskorti, passaðu því að fá nóg kalk, t.d. úr mjólkurafurðum. B-vítamín getur líka hjálpað við sinadráttum.

Mæði og hjartabank sem orsakast af auknu blóðflæði og meiri áreynslu á hjartað, er hægt að halda í skefjum með því að halda blóðprósentunni eðlilegri. Ef þú ert blóðlítil þarf hjartað að erfiða við að koma nægu súrefni út um líkamann. Gættu þess því að fá nægilegt járn. Þú getur einnig reynt að sofa með þykkari kodda undir höfðinu og ef þú sefur á hliðinni er léttara álag á hjartað vegna minni þrýstings á stóru æðarnar sem liggja til hjartans.

Næturþvaglát verða tíðari eftir því sem líður á meðgönguna. Það er vegna þess að barnið stækkar og þar með eykst þrýstingur á blöðruna til muna þar sem hún getur ekki rúmað jafn mikinn vökva og vanalega (það gæti haft að segja að forðast að drekka mikinn vökva seint á kvöldin) en sennilega hindrar það ekki alveg næturferðir á salernið. Einnig getur verið betra að liggja á hliðinni en á bakinu. Vertu vakandi fyrir því að ef þú finnur fyrir sársauka eða sviða við þvaglát gætirðu verið með blöðrubólgu og þá þarftu að fara mað þvagprufu til læknis.

Með aukinni fyrirferð getur orðið erfiðara að snúa sér við í rúminu. Ef þetta veldur miklum óþægindum gæti verið hugmynd að kaupa snúningslak. Það er lak, sem liggur tvöfalt yfir miðbikið á rúminu eins og yfirlak. Snúningslakið er sleipt báðum megin þannig að auðveldara er fyrir þig að snúa þér við í rúminu. Ef þú ert með bakverk er mjög mikilvægt fyrir þig að koma þér vel fyrir í rúminu. Reyndu að styðja við þig og skorða þig af með aukakoddum eftir þörfum. Hafðu kodda undir kviðnum, einn milli hnjánna, og einn við bakið til stuðnings.

Á heildina litið er einna best fyrir barnshafandi konur að liggja á hliðinni, með bogin hnén. Þá þrýstir barnið minnst á stóru æðarnar sem liggja til hjartans, og það er líka betra fyrir bakið.

Draumar og martraðir geta truflað nætursvefninn á meðgöngunni en þá fara sumar konur skyndilega að muna drauma sína betur. Það að vera undirlögð af svo framandi ástandi sem meðgangan er, gefur undirmeðvitundinni óvenju mikinn efnivið úr að moða. Það getur verið léttir fyrir þig að hafa einhvern til að ræða við um drauma þína. Það getur auðveldað þér að skilja þá og um leið verða þeir ekki eins ógnvekjandi.

Ef þú ert áhyggjufull út af fæðingunni og sársaukanum, sem henni fylgir, er ekki vitlaust að fara á námskeið í fæðingarundirbúningi. Þar ertu frædd um það, sem í vændum er og þér eru kenndar ýmsar æfingar sem geta auðveldað þér fæðinguna. Auk þess er þar vettvangur til að spyrja spurninga. Einnig er gild ástæða fyrir þig að ræða áhyggjuefni þín við lækninn eða ljósmóðurina. Flestar konur velta fyrir sér hvort barnið muni verða heilbrigt og hafa áhyggjur af hinu og þessu.

Ég get ómögulega sofið, hvað geri ég þá?

Fyrir kemur að ómögulegt er að sofa. Það er hættulaust, svo lengi sem þú verður ekki úrvinda.

Í stað þess að liggja og velta sér og bylta og ergja sig yfir því hálfa nóttina er betra að fara á fætur. Farðu og gerðu eitthvað, t.d. lesa, hlusta á tónlist, prjóna, sauma, fara á netið, skrifa bréf eða dagbók o.s.frv. Það er mun hollara andlega að gera eitthvað heldur en bisa við að vera pirruð. Mun auðveldara er að sofna á eftir ef þú hefur haft eitthvað fyrir stafni.

Loks hafa margar ánægju af slökunaræfingum eða róandi tónlist.

Leggðu þig í smástund ef þreyta sækir að þér á daginn. Það er mjög notalegt.

Ef eitthvað er að angra þig er oft gott að ræða það við lækninn eða ljósmóðurina þau geta oft gefið góð ráð sem koma að gagni. Mundu bara að nota ekki svefnlyf á meðgöngunni.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE