Þessi dásamlega uppskrift kemur af vef allskonar.is
Dásamlegir hálfmánar úr smjördeigi fylltir með sveppum. Í uppskriftina notaði ég villisveppi en þú getur notað venjulega flúðasveppi, það er meira að segja hægt að skella í þetta grænmetisafgöngum úr ísskápnum.
Þú getur búið til þitt eigið smjördeig eða keypt frosið í matvöruverslun, ég miðaði við 1 pakka af frosnu smjördeigi.
Uppskriftin er fyrir 8 litla hálfmána eða umslög eða 4 stór og nægir því fyrir 4 í mat.
Sveppa hálfmánar með beikoni
- 1-2 ms ólífuolía
- 45 gr bacon um 3-4 sneiðar, fínsneitt
- 1 laukur, fínsaxaður
- 200-250 gr sveppir, sneiddir
- 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
- 1/2 glas hvítvín (6-7 msk) – má sleppa
- 1 dl rjómi
- 1 msk tómatpúrra
- 4 greinar timian eða 1 msk þurrkað timian
- 1/2-1 tsk cayenne pipar
- 100 gr rifinn ostur
- 1 msk rjómaostur
- salt og pipar eftir smekk
- handfylli rifin steinselja
- –
- 1 pk smjördeig (425 gr)
- örlítil mjólk eða egg(slegið saman) til að pensla deigið
Undirbúningur: 30 mínútur
Bökunartími: 18-20 mínútur
Ef smjördeigið er frosið skaltu byrja á því að leggja það á borðplötu með smá hveiti svo það þiðni á meðan þú útbýrð fyllinguna.
Farðu þar næst í að útbúa fyllinguna.
Settu olíu í pönnu og steiktu bacon, sveppi og lauk í um 3 mínútur eða þar til laukurinn er gullinn. Bættu þá fínsöxuðum hvítlaukrifjunum út í og steiktu í um 2 mínútur. Helltu þá hvítvíninu út í og láttu sjóða alveg niður. Þegar allur vökvi hefur horfið þá hellirðu rjómanum út í og hrærir tómatpúrrunni vel saman við. Settu nú timian saman við og hrærðu vel, láttu sjóða við vægan hita, bættu ostinum og rjómaostinum saman við og láttu malla þar til verður þykkt, eða í um 4 mínútur. Smakkaðu til með cayenne pipar, salti og svörtum pipar. Settu steinseljuna út í og hrærðu saman við. Slökktu undir og láttu kólna á meðan þú hitar ofninn og græjar deigið.
Hitaðu ofninn í 190°C.
Flettu deigið út og skiptu í 4 stóra parta eða 8 litla. Deigið á að vera um 3-4mm þykkt.
Þú ræður hvort þú vilt að umslögin verði hálfmánar, þríhyrningar, ferhyrningar….vertu skapandi!
Settu 2-3 msk af fyllingu á mitt deigið, brjóttu saman og þrýstu brúnunum saman með gaffli. Penslaðu með mjólk eða eggi.
Skerðu 3-4 loftgöt í deigið.
Bakaðu í heitum miðjum ofninum í 18-20 mínútur eða þar til deigið er orðið gullið.
Frábært með allskyns salati: Tómata- og gúrkusalati, brakandi gúrkusalati eða bara því sem þér finnst best.
Svo eru hálfmánarnir algert æði í nesti!
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!