Bossar; þrýstnir og lögulegir, flatir og smágerðir, bústnir og boldungslegir. Bossar koma í öllum stærðum og gerðum. Bossar eru yndislegir, sérstaklega þegar þeir fá að njóta sín til fullnustu og hafa ekki mátt sæta harðneskjulegri meðferð af völdum myndvinnsluforrita þegar þeir birtast áhorfendum sjónum á stafrænu formi.
Náttúrulega lagaðir bossar eru enda bestir; þeir sem hafa ekki verið lagfærðir af mannavöldum, lagst undir hnífinn heldur hafa fengið að halda þeirri lögun sem örlögin ætluðu þeim frá fyrsta degi.
Á vefsíðunni Refinery 29 má lesa ansi litríka grein augum sem einmitt er helguð bossum af öllum gerðum og stærðum. Ætlunin hér er ekki að birta nema brot úr greininni, sem inniheldur útlistanir á viðhorfum einna 30 kvenna til eigin bossa, þar sem þær lýsa því hvaða breytingum þau viðhorf hafa tekið gegnum árin.
Hér fer aftur á móti sýnishorn af því hvernig raunverulegir bossar líta út á mynd; það er að segja, þrýstnir og lögulegir afturendar kvenna sem hafa ekki verið „fótósjoppaðir” til að taka á sig þrýstnari mynd.
Frelsum bossana!
Ég hef alltaf verið lítil og fíngerð. Með grannt og nett mittismál. Nema bossinn á mér, hann hefur alltaf verið stór – MJÖG stór. Ég hef bara alltaf verið þannig. Þegar ég var í 12 ára bekk var ég send á skrifstofu skólastjórans fyrir það eitt að hafa komið í skólann í Juicy Couture joggingbuxum sem voru með áletrunina JUICY yfir allan bossann. Þegar móður minni var hins vegar gert viðvart og tjáð um leið að buxurnar væru óviðeigandi klæðnaður fyrir stúlku á mínum aldri, varð hún yfir sig hneyksluð og spurði hvers vegna nokkur maður væri að stara á bossann á 12 ára gamalli dóttur hennar.
Ég er með húðflúr af konuvörum á bossanum. Þegar ég var sextán ára gömul settum við, ég og tvær vinkonur mínar, stút á varirnar og kysstum blaðsnepil. Svo létum við húðflúra kossafarið á bossa hverrar annarrar. Þetta gerir maður þegar maður er sextán ára gamall. Þess vegna er varafar vinkonu minnar á bossanum á mér. Svona gerist í Georgia.
Ég man enn eftir fyrsta skiptinu, hvenær ég skammaðist mín fyrir bossann á mér í fyrsta sinn á ævi minni. Vinkona stóru systur minnar lét einhverja athugasemd falla og sagði að ég væri farin að verða „smá þrýstin” um bossann. Ég veit ekki hvort ætlunin var að koma inn vanlíðan hjá mér eða gera mig óörugga, en ég brást (augljóslega) strax við og fór að æfa stíft fyrir framan sjónvarpið (ég var 13 ára gömul) …. því ég hélt að ég væri að verða feit.
Ég hef lært að sættast við þá staðreynd að alveg sama hvað ég geri, losna ég aldrei við appelsínuhúðina. En ég hef líka lært að smá appelsínuhúð gerir ekki bossann á mér ógeðslegan. Appelsínuhúðin gerir bossann á mér að alvöru bossa. Og það er hluti þeirrar ástæðu að ég ákvað að leyfa ljósmyndara að mynda bossann á mér, svo ég gæti umfaðmað minn eigin bossa sem er svo undursamlega og fallega ófullkominn.
Ég er með stóran bossa og elska það …
Ég geri hnélyftur, ég fer í ræktina. Og mér hefur alltaf fundist það yndislegt. Það er hluti af minni fegurð; hver ég er. Umfaðmið bossana.
Ég hugsaði voðalega lítið um bossann á mér þar til ég var komin í gagnfræðaskóla. Það var þá sem vinur minn sagði mér að ég hefði „snotran afturenda”. Þegar ég var komin heim leit ég í spegilinn og þarna var hann. Bossinn. Ég geri ráð fyrir því að eftir öll þessi ár í fimleikum – og uppáhalds gallabuxunum mínum – hafi skilað mér aukinni athygli í gagnfræðaskóla. En þar sem ég er ekki með stór brjóst og lítil um mig að framanverðu, þá finnst mér sú tilhugsun að ég hafi þrýstinn bossa þægileg. Ég legg ekkert sérstaklega á mig til að viðra bossann í daglegu lífi – ég vek ekki ónauðsynlega athygli á honum – en kærastinn minn er alveg óþreytandi við að minna mig á tilvist bossans. En sú tilfinning að máta fallegt bikiní eða prófa fallegar gallabuxur og hugsa svo „svakalega er ég flott núna” – það er best í heimi.
Þegar ég var í sjöunda bekk gerði strákurinn sem ég var skotin í, grín að mér og sagði að ég væri með pínulítinn bossa. En kaldhæðnin er sú að fjórum árum seinna sat ég við sundlaug í bikinífatnaði og allt í einu gólaði lítið barn við laugina á mig og spurði „Af hverju ertu með röndóttan bossa?” en barnið átti við slitförin á bossanum á mér sem voru afleiðingar þess að hafa glímt við skyndilega þyngdaraukningu, þar sem bossinn blómstraði. Að því sögðu verð ég að bæta því við að þó ég hafi alltaf haft áhyggjur af því að ég væri með alltof lítinn bossa, er ég komin á þá skoðun núna að bossinn sé fullkominn; smágerður, kúlulaga og algerlega minn sjálfrar til eignar. Ég á þennan bossa!
Til að skoða fleiri bossa; smellið HÉR
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.