Hver þekkir það ekki að fá af og til löngun til þess að breyta til og fegra í kring um sig?
Ég fæ þessa tilfinningu allavegana ansi reglulega og hef því ákveðið að taka saman nokkrar skemmtilegar hugmyndir í ódýrari kanntinum.
Málning!
– Það er ótrúlega skemmtilegt að mála og hægt er að breyta ansi mörgu með aðeins því að mála.
Hér eru til dæmis vinsælustu litirnir hjá Benjamin Moore árið 2019. En Benjamin Moore er einmitt ný málningarverslun hérlendis sem selur hágæða málningu á ótrúlega sanngjörnu verði.
Skraut!
– Það er ótrúlega góð hugmynd fyrir fólk sem að finnst gott og gaman að breyta til að eiga skraut til skiptanna!
Myndarammar í mismunandi litum, blómapottar og jafnvel klukkur!
Skiptu út myndunum í römmunum þínum og raðaðu þeim á nýjann hátt. Fáðu innblástur á síðum eins og pinterest og búðu til sjálf/ur eitthvað fallegt skraut. Það er gaman að skreyta vel en það er einhvernvegin mun skemmtilegra að skreyta með munum sem maður hefur búið til sjálfur!
Blóm og plöntur!
– Það gerir ótrúlega margt fyrir rými að vera með blóm og grænt dúllerí hvort sem að það sé uppi á veggjum eða í pottum vítt og dreift! Það gerir allt heimilislegra, færir manni ró og hlýju.
Ef þú ert hinsvegar eins og ég og getur ekki fyrir þitt litla líf haldið lífi í plöntum þá er frábær lausn að splæsa í gerfiplöntur! Ég er með svoleiðis upp um allt heima hjá mér og versla gjarnan ódýrar plastplöntur og ljómandi fína blómapotta í Ikea og Rúmfó!
Púðar og teppi!
– Að vera með girnilega púða með fallegum myndum annaðhvort í sófanum eða í rúmum er ótrúlega hlýleg og skemmtileg leið til að geta breytt reglulega.
Hægt er að versla alls kyns púðaver bæði á netinu og í verslunum og vera með til skiptins – það þarf því ekki að vera með brjáluð útgjöld í hvert sinn sem manni langar að breyta aðeins til!
Ég hef meira að segja góða reynslu af því að panta mér púðaver af Alí, svo það er um að gera að skoða það!
Filmur!
– Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum þetta blessaða filmuæði! Fólk filmar allt milli himins og jarðar og gefur þar með húsgögnum sínum nýtt útlit. En Það er einmitt ótrúlega viðráðanleg og einföld leið til þess að breyta!
Höldur og handföng!
– Það virkar kannski lítið, en bara það eitt að skipta út höldum á mublum getur gert ótrúlega mikið fyrir húsgögnin!
Það er skemmtilegt að breyta til og jafnvel svona litlir hlutir geta haft mikil áhrif! Ég mæli með að skoða úrvalið á síðum eins og Aliexpress í svoleiðis, en einnig er hægt að kaupa mjög fínar höldur í bæði Ikea og Byko.
Svo er svo ótrúlega margt sem hægt er að gera til að fullnægja þessari breytingarþörf! Vertu óhrædd/ur við að færa til húsgögnin, prófaðu að skipta um herbergi og leyfðu þér svolítið bara að gera það sem þú vilt. Ekki vera fastur í því að reyna að fylgja einhverjum tískustraumum – Þetta er þitt rými og þetta snýst aldrei um neitt annað en að láta þér og þínum líða vel!
Anna Karen er tveggja barna móðir búsett í höfuðborginni. Hún er mikill húmoristi og elskar allt sem má kalla „tabú“.
Anna er mjög ofvirk og gleymin en er með hjartað um það bil á réttum stað. Jákvæðni og gleði er það sem hún vill deila til allra þeirra sem lesa greinarnar hennar ásamt því að markmið hennar er að taka þátt í að stuðla að bættri líkamsímynd og betra sjálfstrausti í samfélaginu.
„Að sýna hlýju, þolinmæði og skilning er með því dýrmætasta sem við getum gefið. En aðeins ef við getum gefið okkur það sjálf“- AKS