Sykur- og hveitilausar smákökur

Það er ennþá dálítið langt í jólabaksturinn hjá flestum en það má nú taka örlítið forskot á sæluna og gæða sér á þessum kökum í mesta skammdeginu. Ekki skemmir fyrir að þær eru meira að segja í hollari kantinum. Uppskriftin er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar.

Sjá einnig: Hveitilaus frönsk súkkulaðikaka

IMG_8805

Sykur- og hveitilausar smákökur

2 dl Sukrin
150 g mjúkt smjör
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk kanill
2 dl möndlumjöl
5 dl tröllahafrar
2 egg
2 tsk vanilludropar
1/2 dl kókosflögur
40 g trönuber
40 g rúsínur

Hrærið Sukrin og smjöri vel saman. Bætið við matarsóda, salti, kanil, möndlumjöli, tröllahöfrum, eggjum og vanilludropum og hrærið öllu vel saman. Myljið kókosflögur með fingrunum og blandið saman við deigið ásamt trönuberjum og rúsínum.

Mótið litlar smákökur með matskeið og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 190° í 10-12 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þær eru teknar af plötunni, þær molna auðveldlega á meðan þær eru heitar.

Þessar hollu og ljómandi góðu smákökur er tilvalið að maula yfir fyrsta aðventuljósinu á morgun. Ég hvet ykkur til að prófa þær.

SHARE