Ég rakst á þessa bollaköku uppskrift á Pinterest og leist það vel á hana að ég hófst strax handan án þess að skoða hana eitthvað betur. Þegar ég var hálfnuð með uppskriftina gerði ég mér hins vegar grein fyrir því að ég hefði stokkið beint í djúpulaugina.
Uppskriftin tekur aðeins lengri tíma heldur en þegar notið er aðstoðar Betty Crocker en útkoman eru syndsamlega góðar bollakökur.
Súkkulaðibitaköku uppskrift:
225 gr mjúkt, ósaltað smjör
3/4 bolli sykur
3/4 bolli púðursykur
4 msk. mjólk
1 msk. vanilludropar
2 1/2 bolli hveiti
1/4 tsk. salt
1 bolli súkkulaðibitar
Setjið saman í skál smjör, púðursykur og sykur og hrærið þangað til blandan er orðin létt í sér. Bætið fyrst við mjólk og vanilludropum og síðan hveiti og salti. Hrærið svo loks við súkkulaðibitana. Búið til litlar kúlur úr deiginu og frystið í lágmark klukkutíma.
Uppskriftin segir að það eigi að hafa þær í frysti yfir nótt en þegar ég gerði þessa uppskrift þá setti ég þær í frysti á meðan ég gerði restina af uppskriftinni og það er alveg nóg.
Bollaköku uppskrift:
340 gr. mjúkt, ósaltað smjör
1 1/2 bolli púðursykur
4 stór egg
2 2/3 bolli hveiti
1 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1/4 tsk. salt
1 bolli mjólk
2 tsk. vanilludropar
Stillið ofnin á 180 gráður. Hrærið saman smjör og púðursykur þangað til það verður létt í sér. Bætið eggjunum við einu í einu og skafið vel niður af hliðunum á skálinni á milli. Næst er þurrefnunum blandað saman í skál og bætt við hina blönduna ásamt mjólkinni og að lokum vanilludropunum.
Þegar formin eru fyllt með bollaköku deiginu er mikilvægt að hella ekki nema í 2/3 af forminu því síðan fer frosin súkkulaðibitakökukúlan ofan í. Henni er tillt ofan á deigið, fyrir miðju og er þetta svo bakað í 16 til 18 mínútur.
Vanillu smjörkrem uppskrift:
225 gr. mjúkt, ósaltað smjör
4 bollar flórsykur, sigtaður
3-4 mjólk
1/4 salt
1 tsk. vanilludropar
Hrærið smjörið þangað til það verður mjög mjúkt og bætið síðan við sigtuðum flórsykri. Hellið mjólkinni við ásamt restinni af hráefnunum í uppskriftinni. Þeytið kremið vel þannig það verði slétt.
Kökurnar eru svo skreyttar með kreminu.
Kristín Helga er óumdeilanlega mesti Kardashian aðdáandi Íslands og nærliggjandi landa. Hennar heitasta ósk er að vera vinkona Khloe Kardashian.
Hún hefur áhuga á öllu mögulegu og þar á meðal að lesa og skrifa um fræga fólkið í Hollywood.