Janine, sem áætlaði að gifta sig fyrr á þessu ári, missti verðandi eiginmann sinn á sviplegan og skyndilegan máta og það einungis 52 dögum fyrir brúðkaupið. Örvingla af sorg, settist Janine niður með brúðkaupskjólinn sem var sérsniðinn á hana sjálfa og drifhvít flíkin, sem eitt sinn var tákngervingur ástar og kærleika, þjónaði nú skyndilega sem sár áminning um ástina sem hún eitt sinn umfaðmaði en glataði í fang dauðans skömmu fyrir stóra daginn.
Hér má sjá Janine í brúðarkjólnum með ljósmynd af John:
Þó brúðarkjólinn væri sár og skerandi áminning um missinn, gat Janine engu að síður ekki fengið af sér að farga flíkinni, sem kjólameistarinn hafði lagt svo mikla natni við, svo flíkin félli fullkomlega á stóra daginn.
Í stað þess að gefa kjólinn burtu, tók Janine þá stórbrotnu ákvörðun að gera flíkina að hluta sorgar- og heilunarferilsins.
Ég ákvað að losa mig ekki við kjólinn, því hann var mér of mikils virði. Heldur umfaðma flíkina og sleppa sorginni lausri á þann hátt. Mig langaði að upplifa frelsi að nýju. Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi. Brjóta upp ferlið.
Janine hafði því samband við Matt Adcock, sem er ljósmyndari og starfar fyrir Del Sol Photography. Í sameiningu ákváðu þau að taka ljósmyndir af Janine undir yfirborði stöðuvatns. Í kjólnum. Til að fullkomna ferlið. Og ljósmynda sorgina á táknrænan hátt.
Ég gerði svolítið sem ég hefði aldrei reiknað með að ég myndi taka upp á. Ég klæddist brúðkaupskjólnum mínum, sem var sérsaumaður og stökk íklædd kjólnum – út í stöðuvatn. Ég gerði það vegna þess að mig langaði að losna undan oki þeirrar skerandi sorgar sem fylgdi því að glata unnusta mínum …. kjóllinn var sérsaumaður fyrir hann. Ég gerði þetta vegna þess að John, unnusti minn, hefði viljað að ég gerði eitthvað þessu líkt. Hann var svo félagslyndur og lifandi einstaklingur og hann óskaði mér alls hins besta í lifinu.
Hér má sjá seríuna af Janine í brúðarkjólnum:
Hér má sjá sterka frásögn sjálfrar Janine um eðli ákvörðunar sinnar:
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.