Takk pabbi!

Ég á móður á lífi og föður á lífi. Ég á tvö systkini sem mér þykir ótrúlega vænt um og það er móður minni að þakka hvað þau eru að gera góða hluti í lífinu í dag. Mamma sá alltaf til þess að við systkinin fengum allt sem við þurftum, okkur skorti aldrei neitt. Við lifðum aldrei við neinn lúxus en alltaf fengum við nóg. Mamma setti sjálfa sig því miður of oft í annað sætið til að við gætum fengið okkar. Ég kann henni bestu þakkir fyrir gott uppeldi og systkini mín taka eflaust undir slíkt.

Pabbi hins vegar, kom minna að uppeldinu. Mamma og pabbi skildu þegar við vorum tiltölulega ung og því var mitt uppeldi lengst af hjá einstæðri móður. Pabbi hefur komið af og til inn í mitt líf (í mýflugumynd) frá því skilnaðurinn gekk í gegn fyrir um kvartöld síðan. Hann var aldrei eiginlegur pabbi því hann hafði bara samband þegar það hentaði honum og það var ekkert sérstakt fyrir viðkvæma mig á mínum yngri árum. Stundum þurfti maður frekar að geta talað við pabba heldur en mömmu og það var töff að fara með pabba á völlinn á meðan það var talið púkó að fara með múttu.

Ég man líka þegar ég var á grunnskólaaldri að ég vildi mjög mikið að mamma og pabbi tækju aftur saman, mér fannst það bara svo eðlilegt, þau voru jú mamma mín og pabbi og því passaði ekki að þau færu sínar eigin leiðir, þeirra leið átti að mínu mati að vera sameiginleg. Mjög eigingjarnt af mér, ég veit.

Þegar ég var að detta á táningsárin vildi ég fátt meira en að hafa sterka föðurímynd í mínu lífi. Pabbi var það augljóslega ekki en alltaf reyndi ég að stóla á hann. Einn laugardaginn ætlaði hann að sækja mig snemma heim til mömmu til að eyða deginum með mér og ég beið og beið og beið og beið (og svo beið ég aðeins lengur). Þegar komið var fram á kvöld hætti ég loks að bíða og í táraflóðinu var ég ekki að fatta af hverju pabbi minn ákvað að beila á mér. Afsökunarbeiðni hans til mömmu daginn eftir var ekki að selja neitt. Að lokum fyrirgaf ég honum þó og við héldum áfram í okkar þykjustunni feðgasambandi næstu árin þar sem við hittumst í besta falli einu sinni eða tvisvar á ári.

Fyrir nokkru síðan slitum við feðgarnir samskiptum og nú höfum við ekki hist eða rætt saman í nokkur ár. Fyrst um sinn var ég frekar pirraður, sár, svekktur, leiður og reiður. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá er hann jú alltaf pabbi minn. En í dag er ég bara þakklátur, sama hvað svo verður í framhaldinu.

Þess vegna vil ég þakka pabba fyrir að kenna mér, ómeðvitað, að verða aldrei sjálfur lélegur pabbi þegar að því hlutverki kemur hjá mér.

Ég veit hvernig tilfinningin er að láta pabba sinn svíkja sig og vera ekki til staðar þegar á þarf að halda – ég mun ekki láta slíkt henda mig og vonandi fæ ég tækifæri til koma þessum lærdómi í verk.

Takk pabbi!

SHARE