Ekki dæma bókina eftir kápunni sagði einhver spekingur og það geri ég svo sannarlega ekki. Ég dæmi ekki einu sinni það sem ég kaupi í Fjölsmiðjunni eða Rauðakrossinum út frá því hvernig hluturinn lítur út eða til hvers hann var hannaður, ég dæmi hann út frá því hvernig ég get breytt honum.
Það var þannig með þessa klukku. Frekar óspennandi ekki satt, ekkert spés? En um leið og ég sá hana þá sá ég möguleikana sem hún bjó yfir.
Ég byrjaði á því að taka hana alveg í sundur, sem var auðveldara en ég átti von á. Hún var ekki límd saman heldur bara heftuð þannig að smá þrýstingur var það eina sem þurfti. Ég losaði líka klukknaverkið frá og lagði til hliðar svo að það myndi ekki þvælast fyrir.
Næst málaði ég allt grátt, bæði hringinn og miðjuna. Svo fór ég létt yfir miðjuna með hvítu, en passaði mig á því að þekja ekki alveg gráa litinn vegna þess að ég vildi hafa veðrað útlit á klukkunni, ég vildi að hún liti út fyrir að hafa staðið tímans tönn. Á meðan málingin var að þorna (ég hef stundum verið spurð hvar ég finni alla þessa auka klukkutíma til að föndra og það er svona sem ég geri það, nota mínúturnar inn á milli) þá fór ég í tölvuna, fann myndir af börnunum mínum frá því að þau voru lítil og prentaði út svarthvítar. Svo klippti ég þær til þannig að þær myndu nokkurn vegin passa á rammann. Ég fór mjög létt yfir rammann með hvítri málingu, notaði límlakk til að festa myndirnar á rammann, og notaði sandpappír til að „klippa“ það sem stóð út fyrir rammann í burtu (til að fá þetta gamla útlit).
Núna var komið að miðjunni. Ég notaði reglustiku og svartan penna til að búa til línur þannig að þetta liti út eins og fjalir. Ég átti þessa límmiða, litaði þá stafi sem ég þurfti gráa með tússlit (svo að þeir myndu passa við litinn sem núna var kominn á klukkuna). Mér finnst best að byrja á stafnum í miðjunni þegar ég er að líma svona niður, til að fá setningarnar jafnt til beggja hliða. Svo fór ég mjög létt yfir aftur með hvítu (líka yfir rammann), og ef mér fannst of mikið af því hvíta þá var tússliturinn tekinn fram aftur. Ég tók klukknaverkið fram aftur og málaði vísana gráa, þannig að allt myndi tóna saman.
Og þá var ekkert annað að gera en að sækja trélímið, líma allt saman, hengja klukkuna upp á vegg og bíða eftir setningunni „mamma, hvað er klukkan þegar stóri vísirinn er á Axel að borða og litli vísirinn alveg að koma á Karen þar sem hún er úti í snjónum?“
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.