Einar Ágúst Víðisson hefur starfað í tónlist í mörg herrans ár og var lengi vel í hljómsveitinni Skítamóral, en hljómsveitin hefur gefið út 7 geisladiska. Hann steig nýlega á svið með hljómsveitinni á ný, eftir 10 ára hlé.
Hann saltaði síld í tunnur 10 ára og man eftir fjölmörgum tískuslysum.
Fullt nafn: Einar Ágúst Víðisson
Aldur: 40
Hjúskaparstaða: Einhleypur á virkum dögum…djók. Einhleypur
Atvinna: Hef lengst af starfað sem skemmtikraftur, í tónlist, útvarpi og sjónvarpi . Það er ýmislegt í pípunum varðandi atvinnumál en ég er að byrja í sölu-, markaðs- og rekstrarnámi hjá NTV.
Hver var fyrsta atvinna þín? Salta síld í tunnur 10 ára gamall. Annars fiskurinn heima í Neskaupstað 14 ára. Ég er ekki alinn upp á kókópöffs og tölvuleikjum
Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum? Almáttugur, minnstu ekki á það ógrátandi. Það var „blacklight“ ljós í félagsmiðstöðinni heima og flott að vera í hvítu í því ljósi. Ennisbandið mitt á þessum tíma var einmitt band af hvítum frotté baðsloppi. „Eighties all the way.“ Einnig fermdist ég í bleikri skyrtu sem ég síðar klæddist í söngvarakeppni sem ég vann og var í kjölfarið boðið í mína fyrstu hljómsveit. Allir þessir merkisatburðir í mínu lífi er markaðir einhverjum tískuslysum. Við sem erum afsprengi 80‘s tímabilsins tengjum.
Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar? Nei. Það er í lagi að eiga einkamál en aldrei leyndarmál. Leyndarmál éta mann upp að innan.
Hefurðu farið hundóánægður úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann? Neibb
Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá? Ha? Nei alls ekki?! Hví þá?
Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í? Eurovision? Nei djók. En það er af nógu að taka í þeirri deildinni. Detta á hausinn á sviðinu á Arnarhóli á 17.júní eitt sinn fyrir framan fullan kofa. Datt um Swear skó (ekki Buffalo) eins Skímó meðlims.
Í hvernig klæðnaði líður þér best? Baðsloppnum eða ber að neðan
Hefurðu komplexa? Það er misgrunnt á mörgu
Hver er besta setning eða orðtak sem þú hefur heyrt? „Skoðanir eru eins og rassgöt, allir með svoleiðis“
Vefsíðan sem þú skoðar oftast? Rekkjan.is
Seinasta sms sem þú fékkst? Það er til rannsóknar hjá lögreglunni
Hundur eða köttur? Það er oft soddan hundur í mér. En ég get verið lævís sem köttur.
Ertu ástfanginn? Hvernig er annað hægt?!
Hefurðu brotið lög? Er‘etta djók eða?
Hefurðu grátið í brúðkaupi? Nei, en vöknaði um augun í mínu eigins.
Hefurðu stolið einhverju? Er þetta opnuviðtal?
Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það? Ég eyði ekki tímanum í svoleiðis pælingar. Ég spái frekar í hvað framtíðin beri í skauti sér í ljósi uppgerðar fortíðar. Verandi í núinu er eina raunverulega leiðin til að vera til.
Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Ef maður skyldi ná því þá vona ég að ég geti búið í samfélagi sem býður okkur mannsæmandi líf. Það er engin glóra í þessu eins og málin eru í dag. Þjóðarskömm. Þarna fyrst á lífið að vera að byrja að rokka!
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.