Nú er enn og aftur mikil umfjöllun í samfélaginu vegna úrræðaleysis vegna meðferðar ungmenna sem eru í neyslu á vímuefnum.
Þessi umræða er alls ekki ný á nálinni, heldur er hún búin að eiga sér stað fyrir tómum eyrum stjórnvalda og þeirra ráðuneyta sem að málaflokknum koma.
Sjálf hef ég barist síðastliðin 18 ár við kerfið vegna sonar míns fíkilsins. Hann var aðeins 13 ára þegar sú barátta hófst. Slagurinn sem við foreldrar máttum taka við „velferðakerfið“ til þess að fá aðstoð við að bjarga unglingnum okkar úr klóm vímuefnaveraldarinnar, var slagur sem tók jafn mikla orku og að horfa á barnið sitt skaða sig með neyslu.
Kerfið virkaði lítið og illar fyrir 18 árum og virkar lítið og illa í dag.
Af hverju?
Ég hef oftar en einu sinni spurt þáverandi velferða og heilbrigðisráðherra þessarar spurningar:
Af hverju er ekkert brugðist við til að bjarga þessum börnum?
Þessi börn eiga að njóta verndar í gegnum barnaverndarlögin og mannréttindasáttmála svo ekki sé talað um barnasáttmálan.
Mikil umræða hefur verið um það að tveir unglingar í kringum 15 ára hafi verið vistaðir í fangageymslu þar sem ekki var til viðeigandi úrræði, sem sagt neyðarvistun full!
Fyrir 11 árum síðan var drengur á því reki vistaður í fangaklefa af því engin úrræði héldu honum, það var ekki til úrræði sem réði við hann.
Ég gæti dritað hér niður mörgum sögum af misbresti í kerfinu þegar kemur að þessum hóp en læt þetta nægja.
Með þessum pistli vill ég vekja samfélagið til umhugsunar um það af hverju er þessi saga svona löng?
Hvað er það sem er ekki að virka?
Ég hef alveg mínar skoðanir á þessu og eitt af því sem vantar og mér hefur fundist vanta í öll þessi ár er fagfólk. Þá er ég að meina fagfólk sem hefur þekkingu og menntun til þess að vinna með fíknina og undirliggjandi raskanir, já og tilfinningalegar afleiðingar eins og kvíða og þunglyndi. Til þess að vel sé staðið að hverju ungmenni þarf að vera hagnýt og margvísleg fagþekking á öllum þeim þáttum sem snúa að einstaklingnum.
Sem dæmi er ekki nóg að einstaklingur hætti að nota efni og sé áfram í vanlíðan, nei þá eru meiri líkur en minni á því að hann noti efni aftur til að draga úr vanlíðaninni.
Það þarf nefnilega eitthvað að taka við eftir meðferð líka. Þetta er langtímaverkefni en ekki eitthvað sem græjast á örfáum vikum.
Að hverju ungmenni kemur svo fjölskylda í það minnsta foreldrar og það þarf að styrkja allt baklandið. Oft er það orðið þannig að samskipti eru komin í algeran hnút og það þarf að aðstoða foreldra og aðra aðstandendur með þá vanlíðan sem þeir fara í gegnum.
Oft þarf að hjálpa ungmenninu og foreldrunum að eiga ný og heilbrigð samskipti.
Eins og áður kom fram er ég móðir sem hef gengið þessa leið í langan tíma. Minn er blessunarlega fullorðinn og án vímuefna í dag en þessi ganga var það erfiðasta sem ég hef tekist á við í lífinu.
Ég hef líka unnið sem fagaðili og komið að meðferðun ungmenna sem og stuðning við foreldra þeirra og því leyfi ég mér að setja fram hér mína faglegu þekkingu og þekkingu mína sem foreldri.
Ég skora á „velferðakerfið“ að girða sig í brók og taka þessum vanda alvarlega, með faglegum og langtímaúrræðum en ekki skella fram plástri til að þagga niður umræðuna.
Það er alveg ljóst að þetta málefni er upp á líf og dauða. Börnin okkar eru að deyja af völdum vímuefna eins og flugur sem fljúga á eiturspaða.
Ég sjálf hef fylgt alltof mörgum ungmennum til grafar sem hafa látist vegna afleiðinga vímuefna!
Það er komið nóg.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!