„Það var ekkert í boði að skíta á sig“

Eva Ruza var kynnir á Miss Universe Iceland keppninni og kom dómurunum ítrekað til að hlæja þrátt fyrir að þeir skildu ekkert hvað hún var að segja.
„Ég fékk bara símtal frá henni Manúelu og hún bað mig um að taka þetta að mér, sem var sjálfsagt mál af minni hálfu,“ segir Eva Ruza Miljevic, sem sló í gegn sem kynnir á Miss Universe Iceland keppninni sem fór fram í Gamla bíó á mánudagskvöld. En Manúela Ósk Harðardóttir var einn af aðstandendum keppninnar. Eva er reyndar ekki óvön því að standa á sviði, en hún var til að mynda kynnir í Color run hlaupinu í sumar, ásamt fleiri. „Ég hafði samt aldrei prófað að gera eitthvað svona og það er alltaf gaman að prófa að gera eitthvað nýtt. Í Color run vorum við þrjú að peppa tólf þúsund manns en þarna var ég ein á sviðinu. Það var ekkert í boði að skíta á sig,“ segir hún og skellir uppúr.

Upplifði prinsessudag

Eva klæddist glæsilegum silfurlituðum pallíettukjól og himinháum hælskóm, en það sem hún óttaðist mest áður en hún steig á svið var að hún myndi detta um sjálfa sig í skónum. Hún er nefnilega ekki vön að klæðast slíkum skóbúnaði. „Ég er alls ekki feimin að vera á sviði en ég hafði töluverðar áhyggjur af þessum hælum. En ég stóð í lappirnar allan tímann. Þetta var annars voðalegur prinsessudagur fyrir mig, sem lifi dagsdaglega bara þessu venjulega mömmulífi. Ég er tvíburamamma sem þarf að skutla og sækja á æfingu, þrífa, elda mat, láta krakkana læra og allt það, þannig það er mjög gaman að fá einn dag þar sem maður er tekinn í greiðslu og förðun og klæðist glimmerkjól. Það er engum sem finnst það leiðinlegt.“

28952 - Eva Ruza

Karakterinn fékk að njóta sín

Eva fékk staðlað handrit á ensku í hendurnar frá eigendum keppninnar úti, en hún þurfti í meginatriðum að fara eftir því. „Þessi Miss Universe keppni er alveg risastórt batterí þannig það þarf að fylgja ákveðinni uppskrift að því hvernig þeir vilja að keppnin sé. Keppnin fór samt 97 prósent fram á íslensku, ef ég á að giska á prósentutölur. Ég kynnti stelpurnar á ensku, spurði þær spurninga og þær svöruðu á ensku. Annað var á íslensku,“ segir Eva sem þýddi handritið sjálf og hennar karakter fékk því að njóta sín. „Ég fékk þau fyrirmæli að ég ætti að gera það. Ástæðan fyrir því að þau fengu mig til gera þetta var sú að þú vildu fá minn karakter. Ég átti að gera þetta að mínu, sem ég gerði.“

Dómararnir skellihlógu

Eva segir það hafa verið mjög skemmtilega reynslu að kynna keppnina, en viðurkennir að hún hafi verið pínu stressuð áður en hún steig á svið. „Fyrst þegar ég steig á svið þá fann ég hvernig adrenalínið pumpaði út í æðarnar og ég var aðeins stíf í öxlunum. En fljótlega slaknaði á öllu og ég datt í sjálfa mig. Dómarnir komu einmitt til mín eftir keppnina og hrósuðu mér. Þeir voru skellihlæjandi allan tímann þó þeir skildu ekkert hvað færi fram. Þeir náðu meira að segja að tengja við íslensku brandarana. Mér leið mjög vel að heyra það og ég held að ég geti sagt: „My mission was completed.“

28952 - Eva Ruza1

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

 

SHARE